Íslenska ríkið hafði betur gegn Ásthildi Lóu Þórsdóttur, mennta- og barnamálaráðherra, og eiginmanni hennar í héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Hjónin stefndu ríkinu vegna aðgerða sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en að þeirra mati hafði embættið staðið ranglega að nauðungarsölu fasteignar þeirra og úthlutun söluverðs eignarinnar til gerðarbeiðandans Arion banka hf.

Hjónin sökuðu sýslumann um að hafa ekki tekið tillit til fyrningar vaxta við úthlutun söluverðs eftir uppboð á heimili þeirra hjóna og hófst málið árið 2016 þegar nauðungasölubeiðni barst frá Arion banka.

Samkvæmt útreikningum sem aflað var einhliða af hálfu þeirra hjóna fékk bankinn úthlutað 10.643.560 krónum hærri fjárhæð en orðið hefði ef þar hefðu ekki verið meðtaldir vextir sem stefnendur telja að þá hafi verið fyrndir.

Í útreikningunum er miðað við að fyrningu vaxta hafi verið slitið þegar sýslumannsembættið móttók beiðni um nauðungarsölu á eigninni, 21. nóvember 2016.

Þar er miðað við að vextir sem gjaldféllu meira en fjórum árum fyrir þessar dagsetningar, þ.e. 21. og 25. nóvember 2012, hafi verið fyrndir þegar til úthlutunar kom.

„Þótt þess sé ekki getið í málatilbúnaði stefnenda verður að ætla að þar sé gengið út frá reglu 1. mgr. 17. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda þess efnis að fyrningu sé slitið þegar beiðni um fullnustugerð berst sýslumanni, hafi kröfuhafi heimild til að krefjast fullnustugerðar fyrir kröfu hjá skuldara, að öðrum nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Kröfur um vexti af peningalánum fyrnast á fjórum árum,” segir í dómi Héraðsdóms.

Héraðsdómur áréttar í dómi sínum að á þeim hjónum hvíldi sönnunarbyrði um að umræddir vextir hafi í reynd verið fyrndir og að starfsfólk sýslumannsembættisins hafi sýnt af sér saknæma háttsemi (ásetning eða gáleysi) með því að hafa ekki undanskilið fyrnda vexti frá fjárhæð úthlutunar söluandvirðis eignarinnar til Arion banka.

„Málatilbúnaður stefnenda er að nokkru leyti óglöggur um sum þeirra atriða sem hér voru nefnd. Þannig skortir nokkuð á reifun þess hvaða fjárhæðir vaxta hafi gjaldfallið á hverjum gjalddaga um sig fyrir 21. og 25. nóvember 2012 og hvaða áhrif endurútreikningur lánanna kunni að hafa haft á fyrningu þeirra,“ segir í dómi Héraðsdóms.

Fyrir liggur að bæði lánin voru endurútreiknuð í byrjun árs 2011 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum um vexti og verðtryggingu. Endurútreikningur beggja lánanna var síðan endurskoðaður með hliðsjón af sjónarmiðum um fullnaðarkvittanir vegna greiðslu vaxta sem komu fram í dómum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012.

Hinn endurskoðaði endurútreikningur lánanna lá fyrir 6. maí 2014 og skyldi fyrsti gjalddagi eftir endurútreikninginn vera 15. sama mánaðar, þ.e. rúmlega tveimur og hálfu ári áður en hjónin byggja á að fyrningu hafi verið slitið með framlagningu nauðungarsölubeiðna hjá sýslumannsembættinu.

Krafan sem þau hjón byggðu mál sitt á er skaðabótakafa sem lýkur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.

Hjónin kærðu úthlutunargerðina og Arion banka í mars 2018 og unnu málið fyrir Héraðsdómi Reykjaness í júní sama ár en Landsréttur snéri dóminum við stuttu síðar.

Þá áfrýjuðu hjónin til Hæstaréttar sem tók ekki málið upp.

Að mati Héraðsdóms Reykjavíkur verður að leggja til grundvallar að stefnendur hafi í síðasta lagi 13. nóvember 2018, þegar ákvörðun Hæstaréttar lá fyrir, mátt ætla að frumvarp sýslumanns um úthlutun söluverðs fasteignarinnar væri endanlegt og þau hafi með því verið búin að fá nauðsynlegar upplýsingar um ætlað tjón sitt.

„Krafan var því fyrnd að fjórum árum liðnum frá þeim tíma og rúmu ári áður en mál þetta var höfðað. Af þeirri ástæðu er óhjákvæmilegt að sýkna stefnda af kröfum stefnenda. Því koma aðrar málsástæður sem aðilar byggja á ekki til úr­lausnar í málinu,“ segir í dómi héraðsdóms.