Heilbrigðisráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð landlæknis í máli Intuens segulómunar ekki hafa samræmst málshraðareglu stjórnsýslulaga. Ráðuneytið leggur til við embættið að flýta meðferð málsins eins og kostur er og upplýsa Intuens um hvenær niðurstöðu sé að vænta.
Úrskurðurinn féll degi áður en Alma Möller, sem var landlæknir á þeim tíma sem um ræðir, tók við sem heilbrigðisráðherra.
Í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins er saga málsins rakin en Intuens fékk staðfestan rekstur frá embætti landlæknis í byrjun nóvember 2023. Þann 22. desember óskaði fyrirtækið eftir breytingu á rekstrinum, sem landlæknir synjaði þann 11. mars. Með úrskurði ráðuneytisins 30. ágúst sl. var ákvörðun landlæknis þó felld úr gildi þar sem hún var metin ólögmæt og lagt til að embættið tæki málið aftur fyrir.
Lögmannsstofa LOGOS lagði fram málshraðakæru til ráðuneytisins fyrir hönd fyrirtækisins fyrir rúmum mánuði. Frá því að úrskurður ráðuneytisins lá fyrir höfðu takmarkaðar upplýsingar fengist frá embætti landlæknis en þann 4. nóvember greindi embættið frá því að óskað hafi verið eftir áliti og umsagna fimm fagfélaga um tilkynningu Intuens. Frestur hafi verið gefinn til 28. október en hann síðan framlengdur og bárust loks tvær umsagnir í lok nóvember.
Ráðuneytið bendir á að af umsögn embættis landlæknis að dæma verði ráðið embættið telki að umsagnir umræddra félaga skipti miklu máli við úrlausn málsins. Hvorki umsagnarbeiðni embættisins né svör félaganna liggi þó fyrir í málinu þrátt fyrir beiðni ráðuneytisins um öll gögn málsins
„Með hliðsjón af framangreindu svo og þeirri staðreynd að embættið óskaði ekki fyrr en við endurupptöku málsins eftir umsögnum fagfélaganna, er það mat ráðuneytisins að sá tími sem leið frá því að úrskurð þess nr. 18/2024 lá fyrir og þangað til umsagna var leitað hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. einnig álit umboðsmanns Alþingis frá 24. september 1996 í máli nr. 1364/1995. Í því ljósi ber að líta til þess að embættið taldi ekki nauðsynlegt að afla umsagna í fyrra skiptið sem málið var til meðferðar hjá því, en taldi málið í það skipti engu að síður rannsakað með ítarlegum hætti,“ segir í úrskurði ráðuneytisins.
Þá bendir ráðuneytið á að samkvæmt 3. málsgrein 9. greinar laganna beri stjórnvaldi að skýra aðila máls frá því þegar fyrirsjáanlegt sé að að afgreiðsla máls muni tefjast og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta en Intuens hafi óskað eftir upplýsingum um væntanlegan málsmeðferðartíma þann 2. september.
„Í svari embættisins var kærandi ekki upplýstur um mögulegan málsmeðferðartíma. Þá gerði embættið ekki tilraun til þess, í síðari samskiptum sínum við kæranda, að upplýsa um mögulegan málsmeðferðartíma málsins, þrátt fyrir að embættið hafi óskað eftir umsögn fagfélaga og síðar veitt þeim lengri frest til að skila umsögn í málinu. Hefur kærandi því ekki enn fengið upplýsingar um hvenær vænta megi ákvörðunar í málinu eða aðrar upplýsingar um væntanlegan framgang málsins. Er það niðurstaða ráðuneytisins að framangreind málsmeðferð embættis landlæknis hafi ekki verið í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.“
Sjúkratryggingar einnig gerðar afturreka
Intuens hefur sömuleiðis staðið í stappi við Sjúkratryggingar Íslands vegna útboðs á myndgreiningarþjónustu. Forsvarsmenn Intuens kærðu útboðið og ákvað kærunefnd útboðsmála að stöðva það útboð þar sem líiklega hafi það falið í sér brot á lögum um opinber innkaup.
Í grunninn snerist kæran um skilmála í útboðsgögnum, sem Intuens sagði klæðskerasniðin að ákveðnum fyrirtækjum. Fór Intuens fram á að kærunefndin leggði fyrir Sjúkratryggingar Íslands, og Fjársýslu ríkisins fyrir hönd Sjúkratrygginga, að fella niður ólögmæta skilmála í útboðsgögnunum og auglýsa útboðið á nýjan leik án skilmálanna. Loks var þess krafist að innkaupaferlið yrði stöðvað.
Fallist var á stöðvunarkröfu Intuens en leyst yrði úr öðrum kröfum með úrskurði þegar endanleg sjónarmið Intuens hafa komið fram og öllum gögnum hefur verið skilað.
Sjúkratryggingar hafa frá upphafi neitað að gera samning við Intuens en Samkeppniseftirlitið hefur meðal annars sagt að engar málefnalegar ástæður væru fyrir því að gera ekki slíkan samning. Þá var Sjúkratryggingum í byrjun nóvember gert að greiða 41 milljónar króna stjórnvaldssekt þar sem innkaup af öðrum starfandi aðilum á markaðnum hafi verið gerð heimildarlaust.