Landssamtök lífeyrissjóðanna efna til málstofu um hlutverk og samskipti fjárfesta og stjórnar/stjórnenda skráðra félaga á Hótel Reykjavík Grand þriðjudaginn 28. janúar.

Þar verða erindi og umræður og áhersla lögð á reglur og viðmið sem gilda um samskipti á hluthafafundum og á milli hluthafafunda.

„Málstofunni er ætlað að vera vettvangur skoðanaskipta fjárfesta og stjórnenda félaga um hvernig æskilegt sé að haga stefnumörkun og samskiptum þeirra á milli. Frummælendur koma úr ýmsum áttum og miðla af þekkingu og reynslu sinni úr ýmsum greinum í atvinnulífinu, háskólasamfélaginu og lífeyrissjóðakerfinu,“ segir í tilkynningu.

Húsið verður opnað kl. 8:30 og strax að loknu morgunkaffi mun Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, setja málstofuna á slaginu kl. 9:00.

Að loknum erindum og pallborðsumræðum verður samantekt úr umræðunum og hádegisverður kl. 12:30. Málstofunni lýkur síðan um kl. 14:00 en fundarstjóri málstofunnar verður Bergur Ebbi, rithöfundur og uppistandari.