Róbert Wessman stofnaði líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech árið 2013. Hann segir að félagið hafi unnið markvisst allt frá stofnun félagsins að ná markmiðum sínum og að skipa sér sem ungt félag í fremstu röð.
„Það er mjög ánægjulegt, eftir yfir 10 ára uppbyggingarstarf, að vera komin með fyrirtæki í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Alvotech hefur lokið við þróun á fimm lyfjum sem eru mjög flókin í þróun, okkur hefur tekist að reisa frábæra verksmiðju og tryggja samninga við 20 alþjóðleg lyfjafyrirtæki um að selja og dreifa okkar lyfjum til yfir 90 markaða.“
Hann nefnir Möltu sem dæmi um land sem hafi náð miklum árangri í uppbyggingu lyfjaiðnaðar með markvissum aðgerðum. Róbert byggði upp eitt fyrsta lyfjafyrirtæki Möltu árið 2001. Hefur lyfjafyrirtækjum fjölgað verulega á Möltu síðan þá.
„Árið 2012, þegar ég var að undirbúa stofnun Alvotech, skoðaði ég að hefja starfsemi í Möltu, þar sem ég hafði áður starfað með Actavis, en endaði á að hefja starfsemi á Íslandi. Í dag eru á Möltu sennilega á fjórða tug lyfjafyrirtækja.“
Malta tók þennan bolta og spilaði gríðarlega vel. Ég byggði upp þróunar- og framleiðsluaðstöðu bæði á Möltu og Íslandi fyrir 25 árum. Yfirvöld á Möltu nýttu vel tækifærið og þau fræ sem ég sáði hafa skilað yfir 30 lyfjafyrirtækjum til Möltu síðan þá.“
„Yfirvöld á Möltu unnu með mér til að skilja hvernig hægt væri að byggja upp frekara háskólanám til að efla uppbyggingu nýs iðnaðar í landinu, breyttu löggjöf til að styðja við þessa nýju atvinnugrein,“ segir Róbert.
„Þau veita enn þann dag í dag aðstöðu og fjárhagslegan hvata fyrir fyrirtæki sem vilja koma til landsins. Yfirvöld taka þátt í þjálfun starfsfólks, sem getur verið kostnaðarsöm. Þekkingin sem byggist upp með fleiri lyfjafyrirtækjum skapar svo snjóboltaáhrif. Með tímanum verður hún að aðdráttarafli í sjálfu sér og minni þörf á hvötum,“ bætir Róbert við.
Nánar er rætt við Róbert í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.