Streymisveitan Netflix hefur ákveðið að hækka áskriftargjöld sín þrátt fyrir velgengni fyrirtækisins í að takast á við dreifingu lykilorða. BBC greinir frá.
Mánaðarleg grunnþjónusta streymisveitunnar hækkar um tvo Bandaríkjadali, eða tæpar 280 krónur. Dýrari áskriftin, Prime, mun sömuleiðis hækka um þrjá dali, eða 416 krónur.
Netflix bætti við sig rúmlega 8,8 milljónum áskrifenda frá júlí til september á þessu ári sem er tveggja ára met hjá fyrirtækinu. Streymisveitan hefur hins vegar verið í efasemdum um hvort það geti haldið áfram að bæta við sig áskrifendum samhliða aukinni samkeppni.
Undanfarin ár hefur Netflix lagt áherslu á að framleiða eigin efni og sagði meðal annars í ársuppgjöri sínu til fjárfesta að sú stefna hafi alltaf verið mikilvæg þar sem samkeppnin hafi stöðugt verið að þróast. Þar að auki hefur verkfall handritshöfunda í Hollywood haft mikil áhrif á framleiðslu sjónvarpsþátta og kvikmynda.
„Stjórnendur vinna nú hörðum höndum að því að kreista út hvern einasta dropa sem þau geta frá tilteknum áskrifendahópum. Þegar sá bolli byrjar hins vegar að þorna verður athyglisvert að sjá nákvæmlega hversu mikinn árangur fyrirtækið mun hafa á næsta stigi,“ segir Sophie Lund-Yates, hlutabréfasérfræðingur hjá Hargreaves Lansdown.