Herdís Dröfn Fjeldsted, sem tók við sem forstjóri Sýnar um miðjan síðasta mánuð, segir mikil vonbrigði að fjögurra vikna gömul yfirlýsing Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um að draga eigi úr umsvifum Ríkisútvarpsins (RÚV) á auglýsingamarkaði sé þegar orðin tóm.
„Stjórnvöld ætla ekki að hjálpa einkareknu miðlunum að blómstra í erfiðu alþjóðlegu umhverfi, heldur virðast þvert á móti ætla að auka enn á séríslenska, heimagerða hindrun,“ skrifar Herdís í aðsendri grein á Vísi. „Hljóð og mynd fara einfaldlega ekki saman í málefnum RÚV.“
Tilefnið er forsíðuumfjöllun Viðskiptablaðsins í vikunni um áætlanir Ríkisútvarpsins að auka auglýsingatekjur í ár um 17,4% frá fyrra ári.
Aukningin mun eiga sér stað á sama tíma og nýr þjónustusamningur RÚV og ríkisins tekur gildi en hann kveður sérstaklega um að minnka eigi umsvif stofnunarinnar á auglýsingamarkaði. Tilkynnt var um samninginn í byrjun þessa árs.
Herdís segir að á fyrstu viku sínum í nýju starfi forstjóra Sýnar, sem rekur m.a. Vísi, Stöð 2 og Bylgjuna, þóttist hún heyra af samstarfsfélögum sínum að ekki væru bundnar miklar vonir við framangreinda yfirlýsingu ráðherra.
„Sporin hræða enda um margendurunnið loforð að ræða. Um árabil hefur heyrst að til standi að minnka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði, eða jafnvel að ríkismiðillinn hætti alveg að starfa á þeim markaði,“ skrifar Herdís.
„Ekki grunaði mig þó að einungis tæki örfáar vikur fyrir Ríkisútvarpið að afhjúpa að orð og gjörðir fari engan veginn saman.“
Þrátt fyrir að erlend stórfyrirtæki á borð við Facebook og Google taki til sín stóran hlut auglýsingatekna á Íslandi sé mesta furða hve mikil gróska sé á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Þessi samkeppni sem kemur að utan grundvallast þó á tækninýjungum og hugviti á heimsmælikvarða. Því þýði lítið að kveinka sér undan henni. Ekki þýði þó að kveinka sér undan þeirri samkeppni sem kemur að utan og gr
„Hitt er hins vegar verra þegar ógnin kemur að innan, og byggist á íhaldssemi, ótta við breytingar og tækni sem er á undanhaldi. Hver myndi annars leggja til í dag að stofnaður yrði ríkisfjölmiðill með skylduáskrift sem fyrst og fremst byggði á útvarpi og línulegri dagskrá í sjónvarpi? Og ekki nóg með það heldur skyldi hann líka keppast við einkareknu miðlana um takmarkaðar auglýsingatekjur?
Rekstrarumhverfi fjölmiðla er erfitt og óstöðugt. Þá ríður á að ríkisvaldið geri sitt til að bæta umhverfið, eða flækist að minnsta kosti ekki fyrir.“