Fjár­laga­halli breska ríkisins jókst veru­lega í desember í fyrra sem undir­strikar áskoranirnar sem stjórn­völd standa frammi fyrir við að upp­fylla fjár­mála­reglur sínar á meðan vaxta­stig er hátt og hag­vöxtur veikur.

Sam­kvæmt gögnum frá Hag­stofu Bret­lands, sem The Wall Street Journal greinir frá, var halli ríkis­sjóðs 17,8 milljarðar punda í desember, sem er 10,1 milljarði punda meira en á sama tíma í fyrra og um­fram áætlanir fjár­laga­skrif­stofunnar (e. Office for Bud­get Responsi­bility) sem gerði ráð fyrir 14,2 milljörðum punda.

Helsti þátturinn í aukningu fjár­laga­hallans var vaxta­kostnaður, sem var 3,8 milljörðum punda hærri en í desember 2023.

Sam­svarar það um 657 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Frá upp­hafi fjár­hagsársins hafa stjórn­völd tekið lán upp á 129,9 milljarða punda, sem er 8,9 milljörðum punda meira en á sama tíma­bili í fyrra og næst­hæsta upp­hæð sem skráð hefur verið frá 2020.

Fjár­laga­skrif­stofan áætlar að hallinn muni nema 4,5% af vergri lands­fram­leiðslu á fjár­hagsárinu sem lýkur í mars 2025.

Áhrif vaxta­hækkana og hægari hag­vaxtar

Sam­kvæmt WSJ hafa vaxta­hækkanir verið meiri en stjórn­völd áætluðu og því hefur vaxta­kostnaður ríkisins aukist til langs tíma.

Þetta gæti leitt til niður­skurðar eða skatta­hækkana svo að fjár­lög nái að vera innan fjár­mála­reglna ríkisins sem gera ráð fyrir að lántökur séu ein­göngu fyrir fjár­festingar en ekki rekstrarút­gjöld.

Ávöxtunar­krafa á bresk ríkis­skulda­bréf til þrjátíu ára, svo­kölluð gilts, hækkaði tölu­vert í byrjun janúar, þó að hún hafi lækkað lítil­lega síðan þá.

Krafan er þó enn yfir þeim viðmiðum sem Fjár­laga­skrif­stofan byggði á í október.

Breytingar á bandarískum ríkis­skulda­bréfum hafa haft tölu­verð áhrif á gilts, þar sem 80% af breytingum á bandarískum 10 ára skulda­bréfum endur­speglast í breskum markaði, sam­kvæmt S&P Global Ratings.

Hægur hag­vöxtur tak­markar tekjur

Sam­hliða þessu er hag­vöxtur minni í Bret­landi en áætlað var, sem gæti valdið því að skatt­tekjur verði minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Alþjóða­gjald­eyris­sjóðurinn hækkaði ný­lega spá sína fyrir hag­vöxt Bret­lands í 1,6% fyrir 2025, en það er enn undir 2% spánni sem Fjár­laga­skrif­stofan byggði á.

Þrátt fyrir þessar áskoranir undir­strikaði fjár­málaráðherra Bret­lands, Rachel Ree­ves, á miðviku­dag að stjórn­völd væru staðráðin í að standa við fjár­mála­reglurnar um ríkis­fjár­mál landsins.

„Við munum halda áfram að taka ákvarðanir til að tryggja að við upp­fyllum þessar reglur,“ sagði hún.

Sér­fræðingar telja að hækkandi vaxta­kostnaður gæti þó ekki gengið að fullu gegn skulda­planum Bret­lands, þar sem skuldaálag ríkisins er enn ásættan­legt sam­kvæmt S&P Global Ratings.

Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands kynnti fjárlög landsins í október.
Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands kynnti fjárlög landsins í október.
© epa (epa)

Breska ríkis­stjórnin stendur frammi fyrir ákvörðunum sem gætu haft víðtæk áhrif, bæði á hag­vöxt og skuldir, en þarf á sama tíma að viðhalda trúverðug­leika gagn­vart fjár­festum og upp­fylla fjár­mála­reglur sínar.