Fjárlagahalli breska ríkisins jókst verulega í desember í fyrra sem undirstrikar áskoranirnar sem stjórnvöld standa frammi fyrir við að uppfylla fjármálareglur sínar á meðan vaxtastig er hátt og hagvöxtur veikur.
Samkvæmt gögnum frá Hagstofu Bretlands, sem The Wall Street Journal greinir frá, var halli ríkissjóðs 17,8 milljarðar punda í desember, sem er 10,1 milljarði punda meira en á sama tíma í fyrra og umfram áætlanir fjárlagaskrifstofunnar (e. Office for Budget Responsibility) sem gerði ráð fyrir 14,2 milljörðum punda.
Helsti þátturinn í aukningu fjárlagahallans var vaxtakostnaður, sem var 3,8 milljörðum punda hærri en í desember 2023.
Samsvarar það um 657 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Frá upphafi fjárhagsársins hafa stjórnvöld tekið lán upp á 129,9 milljarða punda, sem er 8,9 milljörðum punda meira en á sama tímabili í fyrra og næsthæsta upphæð sem skráð hefur verið frá 2020.
Fjárlagaskrifstofan áætlar að hallinn muni nema 4,5% af vergri landsframleiðslu á fjárhagsárinu sem lýkur í mars 2025.
Áhrif vaxtahækkana og hægari hagvaxtar
Samkvæmt WSJ hafa vaxtahækkanir verið meiri en stjórnvöld áætluðu og því hefur vaxtakostnaður ríkisins aukist til langs tíma.
Þetta gæti leitt til niðurskurðar eða skattahækkana svo að fjárlög nái að vera innan fjármálareglna ríkisins sem gera ráð fyrir að lántökur séu eingöngu fyrir fjárfestingar en ekki rekstrarútgjöld.
Ávöxtunarkrafa á bresk ríkisskuldabréf til þrjátíu ára, svokölluð gilts, hækkaði töluvert í byrjun janúar, þó að hún hafi lækkað lítillega síðan þá.
Krafan er þó enn yfir þeim viðmiðum sem Fjárlagaskrifstofan byggði á í október.
Breytingar á bandarískum ríkisskuldabréfum hafa haft töluverð áhrif á gilts, þar sem 80% af breytingum á bandarískum 10 ára skuldabréfum endurspeglast í breskum markaði, samkvæmt S&P Global Ratings.
Hægur hagvöxtur takmarkar tekjur
Samhliða þessu er hagvöxtur minni í Bretlandi en áætlað var, sem gæti valdið því að skatttekjur verði minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hækkaði nýlega spá sína fyrir hagvöxt Bretlands í 1,6% fyrir 2025, en það er enn undir 2% spánni sem Fjárlagaskrifstofan byggði á.
Þrátt fyrir þessar áskoranir undirstrikaði fjármálaráðherra Bretlands, Rachel Reeves, á miðvikudag að stjórnvöld væru staðráðin í að standa við fjármálareglurnar um ríkisfjármál landsins.
„Við munum halda áfram að taka ákvarðanir til að tryggja að við uppfyllum þessar reglur,“ sagði hún.
Sérfræðingar telja að hækkandi vaxtakostnaður gæti þó ekki gengið að fullu gegn skuldaplanum Bretlands, þar sem skuldaálag ríkisins er enn ásættanlegt samkvæmt S&P Global Ratings.
Breska ríkisstjórnin stendur frammi fyrir ákvörðunum sem gætu haft víðtæk áhrif, bæði á hagvöxt og skuldir, en þarf á sama tíma að viðhalda trúverðugleika gagnvart fjárfestum og uppfylla fjármálareglur sínar.