Minnst 16 eru látnir eftir eldsvoða í verslunarmiðstöð í kínversku borginni Zigong í Sichuan-héraði. Slökkviliðsmenn voru kallaðir út klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma eftir að eldur braust út í 14 hæða atvinnuhúsnæði og komust 75 manns í skjól.
Samkvæmt kínverskum miðlum er óljóst hvað olli eldinum eða hversu margir voru í húsinu þegar eldurinn kom upp. Í byggingunni má finna verslanir, skrifstofur, veitingastaði og kvikmyndahús.
Eldhætta er enn stórt vandamál í Kína en hátt í 947 banaslys vegna eldsvoða áttu sér stað á þessu ári fram til 20. maí, sem er 19% aukning miðað við sama tíma í fyrra.
Li Wanfeng, talsmaður slökkviliðs- og björgunarstofnunarinnar í Kína, segir að fjöldi elda á opinberum stöðum eins og hótelum og veitingastöðum hafi aukist um 40% og að algengustu orsakir séu bilanir í rafmagns- eða gaslínum og kæruleysi.