Marel hefur ákveðið að fækka starfsmönnum félagsins um 5% á heimsvísu til að lækka kostnað, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Starfsmenn Marels voru um 6.645, í ársverkum talsins, á síðasta ári, þar af 695 á Íslandi. Miðað við það má gera ráð fyrir að uppsagnirnar nái til fleiri en 300 manns.
Félagið áætlar að þessar breytingar muni skila sér í lækkun á kostnaðargrunni sem nemur 20 milljónum evra, eða um 2,8 milljörðum, á ársgrundvelli en einskiptiskostnaður nemur um 10 milljónum evra.
„Í ljósi áframhaldandi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem leiddi til hægari tekjuvaxtar en vænt var, mun Marel grípa til aðgerða þegar í stað til að bæta rekstrarafkomu og styðja við fjárhagsleg markmið sín fyrir árslok 2023,“ segir í tilkynningu Marels.
Rekstrarniðurstaðan undir væntingum
Félagið tilkynnti samtímis um bráðabirgðauppgjör fyrir annan ársfjórðung. „Rekstrarniðurstaða fjórðungsins er undir væntingum“ með 6,3% EBIT framlegð, en sama hlutfall nam 11,8% á öðrum fjórðungi 2021. Marel segir þó að kaupin á Wenger, framleiðanda á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi, hafi haft jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna.
Sjá einnig: Marel kaupir Wenger
Metpantanir voru á fjórðungnum að fjárhæð 472 milljónir evra, eða um 65,7 milljarðar króna á gengi dagsins, samanborið við 371 milljón evra á sama tíma í fyrra. Fram kemur að kaupin á Wenger hafi skilað pöntunum sem nema 17 milljónum evra og tekjum sem nema 12 milljónum evra í fjórðungnum.
Þá nam pantanabók Marels 775 milljónum evra í lok júní, að meðtaldri pantanabók frá Wenger og Sleegers að upphæð 81 milljón evra. Til samanburðar nam pantanabókin 619 milljónum evra í lok fyrsta fjórðungs. Marel segir að sterk staða pantanabókar og virk verðstýring muni styðja við stighækkandi tekjuvöxt og bætta rekstrarafkomu á síðari helmingi ársins.
„Pípan af nýjum verkefnum er áfram sterk og drifin áfram af nýsköpun og aukinni markaðssókn um heim allan til að mæta væntum vexti. Eftirspurn í alifugla- og fiskiðnuðum er sterk, en veikari í kjötiðnaði sem mun hafa áhrif á samsetningu tekna. Í núverandi umhverfi verðbólgu, skorts á vinnuafli og breytilegri neytendahegðun er Marel í einstakri stöðu til að styðja við matvælaiðnaðinn með hátækni- og hugbúnaðarlausnum sem leiða til meiri sjálfvirkni, öryggis og rekjanleika.“
Marel mun birta endanlegt uppgjör fyrir annan ársfjórðung þann 27. júlí næstkomandi.