Tuttugu af 22 félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar lækkuðu í 5,3 milljarða króna viðskiptum í dag. Eina félagið sem var grænt í viðskiptum dagsins var Marel en gengi félagsins hækkaði um 1,5% í 2,1 milljarðs króna veltu. Gengi Marels stendur nú í 552 krónum á hlut eftir samfellda hækkun síðustu sex viðskiptadaga.
Hlutabréf Sýnar lækkuðu mest af félögum aðalmarkaðarins í dag eða um 2,4% í 400 milljóna viðskiptum. Origo lækkaði einnig um 2,1% en þó aðeins í 43 milljóna veltu. Gengi Origo stendur nú í 70 krónum á hlut. Hlutabréf tíu annarra félaga á aðalmarkaðnum lækkuðu um meira en 1% í dag.
Gengi hlutabréfa í Kauphöllinni tóku að lækka eftir hádegi við birtingu verðbólgutalna vestanhafs. Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,3% en væntingar voru um að hún yrði nær 8,0%. Helstu hlutabréfavísitölur vestanhafs hafa lækkað um meira en 2,5% frá opnun markaða í dag.
Verðbólgutölurnar gerðu úti um vonir um að bandaríski seðlabankinn hækki stýrivexti ekki um meira en hálfa prósentu í næstu viku að sögn hagfræðings Pantheon Macroeconomics. Almennt er nú búist við að stýrivextir í Bandaríkjunum. hækki um 0,75 prósentur í næstu viku.