Hlutabréf Marels hækkuðu mest á aðalmarkaði Kauphallarinnar eða um 3,6% í 300 milljóna króna veltu og réttu þar með aðeins úr kútnum eftir 11% lækkun í gær. Hlutabréfaverð Marels, sem tilkynnti eftir lokun markaða á þriðjudaginn um áform um að fækka starfsfólki um 5%, stendur nú í 628 krónum.
Sjá einnig: Fækkun starfsmanna þvert á svið
Hlutabréfaverð Icelandair, sem birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag, hækkaði um 2,5% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 1,79 krónum á hlut. Áhugavert verður að fylgjast með gengi félagsins á morgun en Icelandair hagnaðist um hálfan milljarð á öðrum fjórðungi.
Einungis 1,6 milljarða velta var á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 0,3% í 684 milljóna viðskiptum. Gengi Arion stendur nú í 175,5 krónum á hlut.