Marel hagnaðist um 58,7 milljónir evra, eða um 8,9 milljarða króna, árið 2022, sem er um 39% lækkun á milli ára. Í afkomutilkynningu Marels segir að félagið færist nær rekstrarmarkmiði um 14-16% EBIT framlegð í lok árs 2023 en hlutfallið nam 12,4% á fjórða ársfjórðungi 2022.
Stjórn Marel mun leggja til 11,7 milljóna evra arðgreiðslu, eða um 1,8 milljarða króna, vegna síðasta árs eða sem nemur 20% af hagnaði ársins. Tillagan er í samræmi við 20-40% arðgreiðslustefnu félagsins. Til samanburðar þá nam heildararðgreiðsla Marels 38,7 milljónum evra í fyrra.
Tekjur Marels jukust um 25,6% á milli ára og námu 1,7 milljörðum evra eða um 258 milljörðum króna á síðasta ári. Pantanir námu 1.734 milljónum evra á öllu síðasta ári og pantanabókin stóð í 675 milljónum evra í árslok.
„Árið 2022 var ár umbreytinga fyrir Marel, en röskun á aðfangakeðjum og breytt neytendahegðun hefur haft veruleg og varanleg áhrif á alla virðiskeðju matvælaframleiðslu,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.
Metfjórðungur
Tekjur Marels á fjórða ársfjórðungi námu 489 milljónum evra, eða um 74 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Þá nam rekstrarhagnaður félagsins (EBIT) 61 milljón evra sem samsvarar 12,4% EBIT framlegð. Til samanburðar var EBIT-framlegð félagsins 10,8% á þriðja fjórðungi 2022.
„Þrátt fyrir áskoranir og óvissu í ytra umhverfi lokum við árinu með metfjórðungi,“ segir Árni Oddur.
Eftir kaup Marels á Wenger fór skuldahlutfall (nettó skuldir/ EBITDA) félagsins úr 1,2x í 3,8x á milli fyrsta og annars fjórðungs síðasta árs. Skuldahlutfallið fór upp í 3,9x á þriðja fjórðungi en endaði árið í 3,6x.
„Áhersla lögð á að ná aftur markmiði félagsins um fjármagnsskipan sem er að halda skuldahlutfalli milli 2-3x,“ segir í tilkynningunni.
Frjálst sjóðstreymi Marels nam 10,0 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi en til samanburðar var það neikvætt um 34,8 milljónir evra á þriðja fjórðungi.