Úrvalsvísitalan féll um 1,3% í 2,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Icelandair, eða um 600 milljónir, sem féllu um 1,2%. Gengi flugfélagsins stendur nú í 2,01 krónu á hlut.
Hlutabréfaverð Marels féll um 2,5% í 132 milljóna veltu í dag og stendur nú í 544 krónum. Gengi félagsins hefur fallið um 9,3% frá því að það náði 600 krónum skömmu eftir birtingu ársuppgjörs byrjun febrúar.
Hlutabréf Arion banka lækkuðu einnig um 2%, Símans um 1,8% og Alvotech um 1,5%. Reitir hækkuðu um 1,2%, mest af félögum aðalmarkaðarins.
Play hækkaði um 12,3%
Á First North-markaðnum voru mestu viðskiptin með hlutabréf Play sem hækkuðu um 12,3%. Gengi Play stendur nú í 12,3 krónum á hlut eftir 26,8% hækkun undanfarna þrjá viðskiptadaga í Kauphöllinni.
Gengi Kaldalóns hækkaði um 1,8% í 23 milljóna veltu í dag. Eftir lokun markaða var tilkynnt um að Skel fjárfestingarfélag, stærsti hluthafi Kaldalóns, hefði stækkað við hlut sinn í félaginu. Skel keypti 1,8% hlut fyrir 332 milljónir.