Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,6% í 4,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.

Marel lækkaði um tæp þrjú prósentustig, mest allra félaga á aðalmarkaði. Þá var mesta veltan einnig með bréf Marel, um 1,1 milljarðar króna.

Félagið birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í gærkvöldi eftir lokun markaða. Þar kom fram að félagið hagnaðist um 8,9 milljónir evra á fjórðungnum, en afkoman dróst saman um meira en helming frá sama tímabili í fyrra.

Arion banki lækkaði um 1,5% í 910 milljóna króna veltu. Þá lækkaði gengi bréfa Festi um 2,6% í 200 milljóna veltu.

Fjögur félög hækkuðu í viðskiptum dagsins, Síminn um 0,88%, Reginn um 0,75%, Origo um 0,6% og Nova um 0,5%.

Á First North markaðnum lækkaði Play um 2,9%, en félagið birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða í dag. Flugfélagið skilaði rekstrarhagnaði í fyrsta sinn, en félagið segir þó að áætlanir um rekstrarhagnað á síðustu sex mánuðum muni ekki standast.