Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,4% í 3,3 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Marel leiddi lækkanir en gengi félagsins féll um 4,6% í hálfs milljarðs króna veltu. Gengi Marels stendur nú í 544 krónum á hlut.

Hlutabréf Festi lækkuðu næst mest eða um 2,7% í 400 milljóna viðskiptum. Gengi smásölufyrirtækisins stendur nú í 181 krónu og hefur ekki verið lægra síðan í mars 2021.

Auk Marels og Festi lækkuðu hlutabréf Arion, Icelandair og Kviku um meira en 1% á aðalmarkaðnum í dag.

Töluvert hefur verið um lækkanir á helstu hlutabréfamörkuðum heims í dag eftir hörð mótmæli almennings í Kína vegna sóttvarnastefnu stjórnvalda þar í landi.

Evrópska Stoxx Europe 600 vísitalan hefur lækkað um hálft prósent í dag. Þá hafa helstu bandarísku hlutabréfavísitölurnar fallið um 0,8%-0,9% frá opnun markaða vestanhafs.