Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,4% í 7,9 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan eða um 3,2 milljarðar var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 8,9%. Gengi Marels, sem birti ársuppgjör í gær, hefur ekki verið hærra frá því í ágúst síðastliðnum.
Alvotech hækkaði um 3,8%, næst mest af félögum aðalmarkaðarins, í 380 milljóna viðskiptum. Gengi líftæknifyrirtækisins stendur nú í 1.935 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra. Alvotech tilkynnti í morgun um að Evrópska lyfjastofnunin hefur samþykkt að taka til umsagnar umsókn félagsins um fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara.
Áfram var mikil velta með hlutabréf Íslandsbanka og Kviku banka. Gengi Íslandsbanka, sem birtir ársuppgjör á eftir, hækkaði um 0,3% í 1,1 milljarðs króna viðskiptum og stendur nú í 128,6 krónum á hlut. Gengi Kviku er komið upp í 20,75 krónur eftir 0,7% hækkun í dag.
Arion banki, sem tilkynnti eftir lokun markaða í gær um afkomu síðasta árs, lækkaði um 1,6% í nærri hálfs milljarðs króna viðskiptum í dag. Festi, sem skilaði sömuleiðis ársuppgjöri í gær, féll um 0,3% í viðskiptum dagsins.