Marel hefur undirritað samning um nýtt 150 milljón evra sambankalán, sem nemur ríflega 22 milljörðum króna. Lánið ber sömu vaxtakjör og gjalddaga og 300 milljóna dala lán sem tilkynnt var um í nóvember í fyrra. Lánin eru á gjalddaga í nóvember 2025 með vilyrði um allt að tveggja ára framlengingu, háðu samþykki lánveitenda.

„Hið nýja lán er sambankalán veitt af leiðandi alþjóðlegum bönkum sem hafa fylgt okkur um langt skeið, þ.e. ABN AMRO, BNP Paribas, Danske Bank, HSBC, ING, og Rabobank. Þessi breiði hópur fjármálastofnana fellur vel að alþjóðlegri starfsemi Marel og lánveiting þeirra nú undirstrikar áframhaldandi vilja þeirra og stuðning við starfsemi félagsins til lengri tíma litið,“ segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Samhliða þessu hefur Marel gengið frá samningi um framlengingu á 700 milljón evra sjálfbærnitengdri lánalínu til tveggja ára. Lánasamningurinn, sem gerður var í febrúar 2020, var upphaflega til fimm ára en með möguleika á allt að tveggja ára framlengingu, sem Marel hefur nú nýtt. Lokagjalddagur verður því í febrúar 2027.

„Við erum afar þakklát fyrir það traust sem viðskiptabankar félagsins sýna Marel og okkar metnaðarfullu vaxtarmarkmiðum. Nýtt lán, samhliða framlengingu á eldra láni, veitir félaginu aukinn rekstrarlegan sveigjanleika og styður við langtímamarkmið félagsins í núverandi markaðsumhverfi,“ segir Stacey Katz, fjármálastjóri Marel.