Fimm hluthafar hjá Festi, sem fara samtals með 27,7% hlut, hafa farið fram á margfeldiskosningu við stjórnarkjör á hluthafafundi félagsins á fimmtudaginn næsta, 14. júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Stjórn félagsins boðaði til hluthafafundarins um miðjan júní eftir gagnrýni um hvernig staðið var að uppsögn Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra. Stjórnin sagði við það tilefni að hún teldi að „horft til framtíðar sé ákvörðun hennar um forstjóraskipti rétt og mikilvægt skref í áframhaldandi þróun félagsins“.
Sjá einnig: Slegist um stjórnarsæti Festi
Fjórtán einstaklingar hafa boðið sig fram í stjórn félagsins, þar með talið sitjandi stjórnarmenn. Af þessum fjórtán tilnefndi tilnefningarnefnd alla fimm sitjandi stjórnarmenn auk Björgólfs Jóhannssonar, Magnúsar Júlíussonar, Sigurlínu Ingvarsdóttur og Þórdísar Jónu Sigurðardóttur.
Með margfeldiskosningu gefst hluthöfum kostur á að skipta atkvæðamagni sínu í hverjum þeim hlutföllum sem þeir kjósa sjálfir á jafnmarga menn og kjósa skal eða færri. Þannig geta hluthafar t.d. lagt öll atkvæði sín á einn frambjóðanda.
Framboðslistinn í heild:
- Guðjón Reynisson, sitjandi stjórnarformaður
- Margrét Guðmundsdóttir, sitjandi varaformaður stjórnar
- Ástvaldur Jóhannsson, sitjandi stjórnarmaður
- Sigrún Hjartardóttir, sitjandi stjórnarmaður
- Þórey G. Guðmundsdóttir, sitjandi stjórnarmaður
- Björgólfur Jóhannsson, tilnefndur
- Sigurlína Ingvarsdóttir, tilnefnd
- Magnús Júlíusson, tilnefndur
- Þórdís Jóna Sigurðardóttir, tilnefnd
- Helga Jóhanna Oddsdóttir
- Herdís Pála Pálsdóttir
- Hjörleifur Pálsson
- Óskar Jósefsson
- Viðar Örn Traustason