Fjármálaráðuneytið tilkynnti í morgun um að margföld umframáskrift hafi fengist fyrir grunnmagni útboðsins á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

„Fjármála- og efnahagsráðherra hefur heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til staðar í útboðinu, heimild sem kann að verða nýtt í ljósi þessarar þróunar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Grunnmagn útboðsins nær til 20% af útistandandi hlut eða sem nemur um 40 milljörðum króna miðað við 106,56 króna útboðsgengið í tilboðsbók A. Ráðuneytið tilkynnti á þriðjudaginn að sameiginlegir umsjónaraðilar hefðu móttekið pantanir umfram grunnmagn á fyrsta degi útboðsins.

Ráðuneytið ítrekar að áskriftir í tilboðsbók A muni njóta forgangs við úthlutun, í samræmi við markmið um að mæta eftirspurn einstaklinga áður en úthlutað er til fjárfesta í tilboðsbókum B og C.

Gert er ráð fyrir að tilboðstímabili vegna útboðsins ljúki í dag klukkan 17:00 og geta fjárfestar breytt tilboðum sínum fyrir þann tíma. Gert er ráð fyrir að niðurstöður úthlutunar í útboðinu verði tilkynntar fjárfestum þann 16. maí 2025 fyrir opnun markaða.

Lokadagur greiðslu úthlutaðra hluta er ákveðinn 20. maí 2025 og áætlað er að greiddir útboðshlutir verði afhentir fjárfestum innan tveggja virkra daga frá því að greiðsla berst.