Margrét Guðmundsdóttir hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu hjá Festi, móðurfélagi N1, Krónunnar, Elko og Lyfju. Hún hefur setið í stjórn Festi og N1 þar áður frá árinu 2011, þar af sem formaður á árunum 2012 til 2020.

Tilnefningarnefnd Festi leggur til að Dr. Edda Blumenstein eða Kristrún Tinna Gunnarsdóttir taki sæti Margrétar í stjórninni.

Ellefu einstaklingar, þar af fimm konur og sex karlar, lýstu yfir áhuga á framboði til stjórnar Festi við nefndina. Meðal þessara aðila voru allir núverandi stjórnarmanna í félaginu nema Margrét. Allir sem lýstu áhuga á framboði voru taldir uppfylla almennar kröfur um hæfi til setu í stjórn.

Tilnefningarnefndin var einhuga um að leggja til við hluthafa að sitjandi stjórnarmennirnir sem sækjast eftir áframhaldandi stjórnarsetu verði endurkjörnir. Þeir eru eftirfarandi:

  • Guðjón Reynisson, stjórnarformaður
  • Sigurlína Ingvarsdóttir, varaformaður stjórnar
  • Guðjón Auðunsson, stjórnarmaður
  • Hjörleifur Pálsson, stjórnarmaður

Samkvæmt lögum um kynjahlutfall í stjórnum þurfti nefndin að tryggja framboð a.m.k. einnar konu.

Af þeim fjórum konum sem sóttust eftir að koma nýjar inn í stjórnina taldi nefndin rétt að mæla með Eddu eða Kristrúnu Tinnu, út frá hæfniramma sem tekur mið af starfsemi félagsins og að teknu tilliti til núverandi samsetningu stjórnar.

„Með kjöri annarrar hvorrar þeirra mun aukast breidd í lífaldri stjórnarmanna og fjölbreytni í stjórn því aukast. Þær hafa báðar víðtæka reynslu af stjórnunar- og ráðgjafastörfum sem munu nýtast vel að mati nefndarinnar við störf í stjórn Festi, þ.á.m. víðtæka reynslu af stefnumótun fyrirtækja,“ segir í skýrslu tilnefningarnefndar.

Í tilnefningarnefnd Festi sitja Inga Björg Hjaltadóttir, Ólafur Arinbjörn Sigurðsson og Sigrún Ragna Ólafsdóttir sem er formaður nefndarinnar.

Um frambjóðendurna

Dr. Edda Blumenstein starfar í dag sem lektor og fagstjóri BSc í verslun og þjónustu við Háskólann á Bifröst, einnig er hún eigandi og ráðgjafi beOmni ráðgjafar. Á árunum 2021 til 2023 starfaði Edda sem framkvæmdastjóri framþróunar verslunar og viðskiptavina hjá BYKO, árin 2012-2014 var hún framkvæmdastjóri Smáratívolí, árin 2007 til 2012 deildarstjóri markaðs- og viðskiptaþórunar hjá 14 Iceparma og sem vörumerkjastjóri Coca-Cola hjá Vífilfelli árin 1999-2007.

Hún er stjórnarmaður í Útilíf og Ormsson, SRX og TT3. Edda hyggst segja sig úr stjórn TT3/SRX/Ormsson verði hún kjörin í stjórn Festi. Þá hefur hún einnig setið í stjórn Rannsóknarseturs verslunarinnar og stafrænu ráðgjafarráði SVÞ.

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir hefur frá árinu 2019 starfað sem forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Íslandsbanka en lætur af þeim störfum í mars 2025. Kristrún var einn aðalhöfundur Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi sem kom út árið 2018. Á árunum 2011 til 2019 starfaði hún sem stjórnendaráðgjafi hjá Oliver Wyman í Stokkhólmi (ef frá er talið árið 2016 þar sem Kristrún starfaði hjá fyrirtækjaráðgjöf Beringer Finance í Stokkhólmi). Á árunum 2006 til 2010 starfaði Kristrún Tinna í Greiningardeild (síðar Hagfræðideild) Landsbankans og á afleiðuborði Swedbank Markets í Stokkhólmi.

Kristrún Tinna hefur reynslu af stjórnarstörfum frá sænska drykkjarvöruframleiðandanum Vitamin well (vörumerki: Vitamin well, Nocco og Barbells), Reiknistofu bankanna (varamaður), Votlendissjóði og stjórn UN Global Compact á Íslandi.