Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hún mun gegna starfi sínu áfram til 1. desember 2025 og verður stjórn félagsins og arftaka sínum innan handar við forstjóraskiptin auk þess sem hún mun sinna ráðgjöf fyrir félagið eftir að hún lætur af störfum.
Greint er frá þessu í tilkynningu Nova til Kauphallarinnar.
Margrét hefur verið hluti af Nova frá stofnun og leitt félagið sem forstjóri síðastliðin 7 ár. Hún leiddi þannig félagið við skráningu í Kauphöllina árið 2022.
Í tilkynningu Nova segir að Margrét skilji við Nova í stöðugum og traustum vexti. Uppgjör fyrsta ársfjórðungs, sem var birt eftir lokun Kauphallarinnar í dag, sýni áframhaldandi tekjuvöxt, sterkan EBITDA vöxt og öflugt sjóðstreymi.
„Framundan eru mikilvæg vaxtartækifæri fyrir Nova – þar á meðal með kaupum á Dineout. Samlegð félaganna mun styrkja bæði fyrirtækin til framtíðar og auka ánægju viðskiptavina á bæði einstaklings- og fyrirtækjamarkaði.“
„Það hefur verið mér einstök gæfa að fá að taka þátt í þessari mögnuðu vegferð Nova – að fá að vaxa og dafna með frábæru fólki og eiga þátt í að gera Nova að því sem það er í dag. Það traust sem ég hef notið til að leiða félagið hefur verið mér heiður. Ég fyllist stolti þegar ég horfi til baka á allt það sem við höfum byggt upp saman – með hugrekki, gleði og óbilandi trú á því að hægt sé að gera hlutina öðruvísi, skemmtilegri og betur. Allt hefur sinn tíma og nú tel ég réttan tíma til að hefja nýjan kafla – fyrir mig og fyrir Nova,“ segir Margrét.
„Ákvörðunin var ekki auðveld – enda bý ég að ómetanlegum minningum og dýrmætum tengslum við Nova liðið, viðskiptavini og vini sem orðið hafa til á leiðinni. En maður þarf að þora, skora á sjálfan sig og halda áfram að vaxa. Ég er ótrúlega stolt af Nova og fólkinu sem heldur áfram að leiða félagið með eldmóði og trú á mikilvægi ánægju viðskiptavina, starfsfólks og sterku vörumerki sem er ein mikilvægasta eign Nova. Framtíð Nova er björt og titlarnir munu halda áfram að koma eftir mína tíð – alveg eins og hjá Liverpool. Ég er ekki farin, ég er virkur hluthafi, hækkum í tónlistinni, höfum gaman og sigrum leikinn!“
„Margrét hefur verið drifkraftur í uppbyggingu og árangri Nova frá fyrsta degi. Leiðtogastíll hennar, áræðni og mannlegur tónn hefur skapað fyrirtækjamenningu sem við öll erum stolt af. Hún skilur við félagið í sterkri stöðu, með öfluga stefnu og frábært teymi til framtíðar. Við í stjórninni þökkum henni af einlægni fyrir ómetanlegt framlag og fögnum áframhaldandi samstarfi í nýju hlutverki,“ segir Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarformaður Nova.