Bandarískir hlutabréfamarkaðir héldu áfram að sækja í sig veðrið í lok vikunnar og hafa nú náð að vinna upp mestan hluta þess taps sem þeir urðu fyrir í kjölfar nýrra tollaaðgerða Bandaríkjaforseta í byrjun apríl. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun The Wall Street Journal.
S&P 500 hækkaði um 0,7% á föstudag og fór í fyrsta sinn yfir 5.500 punkta í meira en mánuð. Dow Jones Industrial Average bætti við sig 20 stigum, en það jafngildir innan við 0,1% hækkun.
Nasdaq Composite, sem er að stærstum hluta drifinn áfram af tæknifyrirtækjum, leiddi hækkunina með 1,3% aukningu.
Markaðir hófu vikuna undir talsverðu álagi, þar sem fjárfestar ákváðu að selja mikið af eignum sínum í Bandaríkjunum.
Sú svartsýni vék þó fljótt vegna aukinnar bjartsýni í viðræðum Bandaríkjanna og Kína. Trump hefur dregið einnig í land með hótanir um að víkja Jerome Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, úr embætti.
Á föstudag bætti hann því við að samkomulag við Japan væri „mjög skammt undan.“
Tæknifyrirtæki knýja Nasdaq áfram
Öflug frammistaða stórra tæknifyrirtækja lagði sitt af mörkum til hækkunarinnar á föstudaginn. Hlutabréf Tesla hækkuðu um tæp 10% eftir að samgönguráðuneytið kynnti nýjar reglur fyrir sjálfkeyrandi bíla. Alphabet, móðurfélag Google, studdi einnig við hækkun Nasdaq.
Intel lækkaði þó um 6,7% eftir að fyrirtækið greindi frá taprekstri og varaði við auknum kostnaði vegna viðskiptastríðsins.
Þá lækkuðu hlutabréf T-Mobile US um 11% eftir að fyrirtækið tilkynnti um hægari vöxt í farsímaþjónustu en gert hafði verið ráð fyrir.
Fjárfestar fylgjast grannt með hagtölum
Þótt markaðir hafi tekið við sér eru fjárfestar áfram varkárir. Nú beinist athygli þeirra að lykilgögnum sem birt verða í næstu viku, þar á meðal tölum um hagvöxt sem koma á miðvikudag og atvinnuleysistölum sem birtast á föstudag.
Ann Miletti, yfirmaður hlutabréfaeignastýringar hjá Allspring Global Investments, segir í samtali við WSJ að þróunin á vinnumarkaði verði lykilatriði:
„Hagtölurnar skipta mestu máli nú þegar við reynum að meta hversu nærri við erum hugsanlegu samdráttarskeiði.“
Þá sýndi ný mæling á neytendaviðhorfi áframhaldandi veikleika, þrátt fyrir að niðurstöðurnar væru eilítið betri en bráðabirgðatölur bentu til.