Bandarískir hluta­bréfa­markaðir héldu áfram að sækja í sig veðrið í lok vikunnar og hafa nú náð að vinna upp mestan hluta þess taps sem þeir urðu fyrir í kjölfar nýrra tolla­að­gerða Bandaríkja­for­seta í byrjun apríl. Þetta kemur fram í ítar­legri um­fjöllun The Wall Street Journal.

S&P 500 hækkaði um 0,7% á föstu­dag og fór í fyrsta sinn yfir 5.500 punkta í meira en mánuð. Dow Jones Industri­al Avera­ge bætti við sig 20 stigum, en það jafn­gildir innan við 0,1% hækkun.

Nas­daq Composite, sem er að stærstum hluta drifinn áfram af tækni­fyrir­tækjum, leiddi hækkunina með 1,3% aukningu.

Markaðir hófu vikuna undir tals­verðu álagi, þar sem fjár­festar ákváðu að selja mikið af eignum sínum í Bandaríkjunum.

Sú svartsýni vék þó fljótt vegna aukinnar bjartsýni í viðræðum Bandaríkjanna og Kína. Trump hefur dregið einnig í land með hótanir um að víkja Jerome Powell, seðla­banka­stjóra Bandaríkjanna, úr em­bætti.

Á föstu­dag bætti hann því við að sam­komu­lag við Japan væri „mjög skammt undan.“

Tækni­fyrir­tæki knýja Nas­daq áfram

Öflug frammistaða stórra tækni­fyrir­tækja lagði sitt af mörkum til hækkunarinnar á föstu­daginn. Hluta­bréf Tesla hækkuðu um tæp 10% eftir að sam­gönguráðu­neytið kynnti nýjar reglur fyrir sjálf­keyrandi bíla. Alp­habet, móðurfélag Goog­le, studdi einnig við hækkun Nas­daq.

Intel lækkaði þó um 6,7% eftir að fyrir­tækið greindi frá tap­rekstri og varaði við auknum kostnaði vegna við­skipta­stríðsins.

Þá lækkuðu hluta­bréf T-Mobile US um 11% eftir að fyrir­tækið til­kynnti um hægari vöxt í farsímaþjónustu en gert hafði verið ráð fyrir.

Fjár­festar fylgjast grannt með hagtölum

Þótt markaðir hafi tekið við sér eru fjár­festar áfram varkárir. Nú beinist at­hygli þeirra að lykil­gögnum sem birt verða í næstu viku, þar á meðal tölum um hag­vöxt sem koma á mið­viku­dag og at­vinnu­leysistölum sem birtast á föstu­dag.

Ann Miletti, yfir­maður hluta­bréfa­eignastýringar hjá All­spring Global Invest­ments, segir í samtali við WSJ að þróunin á vinnu­markaði verði lykil­at­riði:

„Hagtölurnar skipta mestu máli nú þegar við reynum að meta hversu nærri við erum hugsan­legu sam­dráttar­skeiði.“

Þá sýndi ný mæling á neyt­enda­viðhorfi áfram­haldandi veik­leika, þrátt fyrir að niður­stöðurnar væru eilítið betri en bráða­birgðatölur bentu til.