Umtalsverðar lækkanir voru á hlutabréfamörkuðum í Asíu í morgun og framvirkir samningar tengdir helstu hlutabréfavísitölum bandaríska markaðarins hafa lækkað talsvert fyrir opnun markaða vestanhafs. Þá hefur Europe Stoxx 600 vísitalan lækkað um meira en 5%.

Mesta lækkunin í Asíu var í Hong Kong. Hlutabréfavísitalan Hang Seng, sem inniheldur mörg félög á meginlandi Kína sem reiða sig á alþjóðleg viðskipti, lækkaði um 13,2% í morgun. Það er mesta lækkunin á einum degi frá fjármálakreppunnar í Asíu árið 1997.

Þá lækkaði taíwanska Taiex vísitalan um 9,7% en hún hefur ekki fallið meira á eindum degi síðan 1990. Taiwan Semiconductor Manufacturing og Foxconn, tvö félög sem spila lykilhlutverk í aðfangakeðju Apple, lækkuðu um tæplega 10%.

Helstu hlutabréfavísitölurnar í Tókýó, Seúl og Sjanghaí lækkuðu um meira en 5%.

Lækkanir eru raktar til tollastefnu Donald Trumps Bandaríkjaforseta sem sagði í gær að hann hyggist halda sínu striki þrátt fyrir miklar lækkanir á hlutabréfamörkuðum.

„Hvað er að fara að gerast á mörkuðum? Ég get ekki sagt til um það,“ sagði Trump í gærkvöldi. „Ég vil ekki að neitt fari niður. En stundum verður maður að taka lyf til að laga eitthvað.“

Framvirkir samningar tengdir Nasdaq-100 vísitölunni hafa lækkað um meira en 4% í verði og framvirkir samningar tengdir Dow Industrials hafa lækkað um 3,5% að því er segir í umfjöllun The Wall Street Journal.