Samkvæmt könnun Seðlabankans frá því í ágúst búast markaðsaðilar við því að meginvextir taki að lækka á fjórða ársfjórðungi þessa árs.
Í upphafi árs bjuggust þeir við vaxtalækkunum á öðrum ársfjórðungi og eru því markaðsaðilar orðnir svartsýnni á vaxtalækkun en áður, samkvæmt Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands sem kom út í morgun.
Þá benda framvirkir vaxtaferlar til þess að búist sé við hægari lækkun vaxta en áður enda eru verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði vel yfir verðbólgumarkmiði.
Raunvextir Seðlabankans, sem reiknaðir eru út frá mismunandi mælikvörðum á verðbólgu og verðbólguvæntingar til eins árs, hafa hækkað það sem af er ári og hafa ekki verið hærri síðan árið 2009.
„Hækkandi raunvexti má rekja til minni verðbólgu og lægri verðbólguvæntinga en meginvextir hafa verið óbreyttir síðastliðið ár. Taumhald peningastefnu miðað við raunvexti hefur því aukist það sem af er ári,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Verðbólguvæntingar eru þó enn háar og kjölfesta þeirra við markmið hefur að öllum líkindum minnkað í verðbólgu síðustu ára.