Vogunarsjóðir, sem gjarnan eru taldir betur í stakk búnir til að takast á við á við sveiflur á fjármálamörkuðum, reyndust illa undirbúnir fyrir þær sveiflur sem urðu í kjölfar tollaaðgerða Donald Trump Bandaríkjaforseta, samkvæmt The Wall Street Journal.
Þótt sumir sjóðir hafi hagnast umtalsvert þegar markaðir féllu eftir svokallaða „frelsisdagstilkynningu“ Donalds Trump, misstu margir af þeim viðsnúningi sem varð þegar tollum var frestað og síðan dýfunni sem kom í kjölfarið.
Edouard de Langlade, stofnandi svissneska vogunarsjóðsins EDL Capital, segir í samtali við WSJ að dagurinn sem tollarnir voru kynntir hafi verið arðbærasti viðskiptadagur sinn á ferlinum. Sjóðurinn græddi 6% með skortstöðum á hlutabréfamarkaði og að veðja gegn Bandaríkjadal.
Þegar Trump tilkynnti síðar um undanþágur og markaðir tóku stökk upp á við, tapaði sjóðurinn hins vegar 1,4% á einum degi. EDL Capital er þó enn í yfir 25% hagnaði það sem af er ári.
Þessar öfgafullu hreyfingar á mörkuðum, sem eru að snerta alla eignaflokka frá hlutabréfum, skuldabréfum og gjaldmiðlum, hafa gert reyndustu sjóðstjórum lífið leitt.
Þeir vogunarsjóðir sem veðjuðu rétt á fyrstu viðbrögð markaða í kjölfar tollatilkynninga urðu margir hverjir undir þegar sveiflan snerist við.
Samkvæmt upplýsingum frá Morgan Stanley var miðvikudagurinn stærsti dagur nettókaupa hlutabréfa meðal vogunarsjóða frá því mælingar hófust árið 2010.
Þrátt fyrir að margir vogunarsjóðir hafi staðið sig betur en almennir hlutabréfamarkaðir, en meðaltap sjóða nemur 2,3% í apríl samanborið við 2,8% lækkun S&P 500, eru undantekningar á því.
Pershing Square Capital, sjóður í stýringu Bill Ackman, hefur tapað um 12,9% í mánuðinum.
Ackman viðurkenndi í færslu á samfélagsmiðlum að engin mótvægisstefna hafi verið til staðar til að verja sjóðinn gegn því sem hann kallaði „sjálfskapað markaðshrun“.
Fjárfestar, líkt og Vineer Bhansali hjá LongTail Alpha, hafa talað opinberlega um hvernig tíðni og hraði á mörkuðum í dag veldur því að þeir þurfi að vera stöðugt á tánum. „Ég vakna á 15–20 mínútna fresti til að fylgjast með stöðunni,“ segir Bhansali við WSJ.
Hann segir lýsandi fyrir andrúmsloftið á markaði í dag að ein færsla á samfélagsmiðlum geti ýtt af stað nýrri bylgju af sölu eða kaupþrýstingi. Samkvæmt WSJ sýna sveiflur síðustu daga að enginn er óhultur þegar efnahags- og markaðaáföll eiga sér stað.