Vogunar­sjóðir, sem gjarnan eru taldir betur í stakk búnir til að takast á við á við sveiflur á fjár­málamörkuðum, reyndust illa undir­búnir fyrir þær sveiflur sem urðu í kjölfar tolla­að­gerða Donald Trump Bandaríkja­for­seta, sam­kvæmt The Wall Street Journal.

Þótt sumir sjóðir hafi hagnast um­tals­vert þegar markaðir féllu eftir svo­kallaða „frelsis­dags­til­kynningu“ Donalds Trump, misstu margir af þeim viðsnúningi sem varð þegar tollum var frestað og síðan dýfunni sem kom í kjölfarið.

Edou­ard de Langla­de, stofnandi sviss­neska vogunar­sjóðsins EDL Capi­tal, segir í sam­tali við WSJ að dagurinn sem tollarnir voru kynntir hafi verið arðbærasti við­skipta­dagur sinn á ferlinum. Sjóðurinn græddi 6% með skort­stöðum á hluta­bréfa­markaði og að veðja gegn Bandaríkja­dal.

Þegar Trump til­kynnti síðar um undanþágur og markaðir tóku stökk upp á við, tapaði sjóðurinn hins vegar 1,4% á einum degi. EDL Capi­tal er þó enn í yfir 25% hagnaði það sem af er ári.

Þessar öf­ga­fullu hreyfingar á mörkuðum, sem eru að snerta alla eigna­flokka frá hluta­bréfum, skulda­bréfum og gjald­miðlum, hafa gert reyndustu sjóð­stjórum lífið leitt.

Þeir vogunar­sjóðir sem veðjuðu rétt á fyrstu viðbrögð markaða í kjölfar tolla­til­kynninga urðu margir hverjir undir þegar sveiflan snerist við.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Morgan Stanl­ey var mið­viku­dagurinn stærsti dagur nettó­kaupa hluta­bréfa meðal vogunar­sjóða frá því mælingar hófust árið 2010.

Þrátt fyrir að margir vogunar­sjóðir hafi staðið sig betur en al­mennir hluta­bréfa­markaðir, en meðaltap sjóða nemur 2,3% í apríl saman­borið við 2,8% lækkun S&P 500, eru undan­tekningar á því.

Pers­hing Square Capi­tal, sjóður í stýringu Bill Ack­man, hefur tapað um 12,9% í mánuðinum.

Ack­man viður­kenndi í færslu á sam­félags­miðlum að engin mót­vægis­stefna hafi verið til staðar til að verja sjóðinn gegn því sem hann kallaði „sjálf­skapað markaðs­hrun“.

Fjár­festar, líkt og Vineer Bhansali hjá Long­Ta­il Alpha, hafa talað opin­ber­lega um hvernig tíðni og hraði á mörkuðum í dag veldur því að þeir þurfi að vera stöðugt á tánum. „Ég vakna á 15–20 mínútna fresti til að fylgjast með stöðunni,“ segir Bhansali við WSJ.

Hann segir lýsandi fyrir andrúms­loftið á markaði í dag að ein færsla á sam­félags­miðlum geti ýtt af stað nýrri bylgju af sölu eða kaupþrýstingi. Sam­kvæmt WSJ sýna sveiflur síðustu daga að enginn er óhultur þegar efna­hags- og markaðaáföll eiga sér stað.