Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hefur hækkað nokkuð í viðskiptum dagsins í kjölfar óvæntrar hækkunar 12 mánaða verðbólgu upp í 9,9% sem greint var frá í morgun. Verðtryggða krafan hefur lækkað til skemmri tíma en hækkað á lengstu bréfin.
Krafan á 8 ára flokki óverðtryggðra ríkisskuldabréfa, RIKB 31, hækkaði um 0,13% (13 punkta) og stendur nú í 6,63% á meðan tæplega 6 ára bréfin RIKB 28 hækkuðu um 17 punkta og RIKB 25 sem er á lokagjalddaga eftir tæpt 2 og hálft ár um 22 punkta. Lengstu bréfin í flokknum RIKB 42 hækkuðu um 10 punkta og standa nú í 6,17%.
Á verðtryggðu hliðinni féll krafan á stystu bréfunum, RIKS 26 sem á rúm 3 ár eftir, um 8 punkta og stendur nú í 1,71% en RIKS 30 lækkaði um stakan punkt. Krafan á nýjasta og lengsta flokkinn til 14 ára, RIKS 37, hækkaði hins vegar um 6 punkta.
Vænta hærri stýrivaxta
Hærri markaðsvextir endurspegla væntingar markaðsaðila um hærri stýrivexti til að bregðast við aukinni verðbólgu, auk þess að hærri nafnvexti þarf í meiri verðbólgu til að fá samsvarandi raunvexti og áður. Lægri verðtryggðir vextir til skemmri tíma endurspegla aukna sókn í slík bréf, sem jafnan fylgir óvæntum verðbólgumælingum upp á við þar sem fjárfestar flýja í skjól verðtryggingarinnar.
Hækkun ávöxtunarkröfu kemur fram í lækkun verðs skuldabréfanna, sem hefur fallið um allt að 1,2% í dag á lengstu óverðtryggðu bréfin í flokknum RIKB 42. Verðið er þeim mun viðkvæmara fyrir vaxtabreytingum sem líftími bréfsins er lengri og því lækkar verð þeirra styttri um minna, eða 0,8% fyrir RIKB 31 og 28 og tæp 0,5% fyrir RIKB 25.
Hinn verðtryggði flokkur RIKS 26 hækkaði á móti aðeins um 0,24%, enda öllu minnikröfulækkun en hækkun óverðtryggðu bréfanna auk þess sem líftíminn er aðeins tæp 3 ár. Lengstu verðtryggðu bréfin RIKS 37 með sinn 13 ára líftíma og 6 punkta hækkun féllu hins vegar um 0,72% í verði.
Svipuð kröfuhækkun út rófið síðastliðna viku
Sé horft á breytingar síðastliðinnar viku hefur krafan á RIKB 25 og alveg út rófið upp í RIKB 42 hækkað ámóta mikið, um 30-35 punkta, sem felur í sér 3,8% lækkun lengstu bréfanna en aðeins 0,76% lækkun þeirra stystu.
Yfir sama tímabil hafa verðtryggðir vextir RIKS 26 fallið um 19 punkta og hafa ekki verið lægri síðan í byrjun nóvember, en krafan á RIKS 30 & 33 sáralítið breyst og á RIKS 37 hefur hún hækkað um litla 5 punkta.