Hlutabréfaverð Amaroq hefur nú hækkað um rúm 17% síðastliðinn mánuð eftir um 2% hækkun í 430 milljóna viðskiptum í dag.
Dagslokagengi málmleitarfélagsins var 209 en fyrir nákvæmlega fjórum mánuðum síðan var það 102 krónur.
Markaðsvirði Amaoq um miðjan september var í kringum 37,3 milljarðar en félagið fór í hlutafjárútboð í byrjun desember þar sem 32.034.664 nýjum hlutum var úthlutað sem nam þá 8,1% af útgefnu hlutafé.
Miðað við núverandi magn útgefinna hluta á dagslokagengi dagsins er markaðsvirði Amaroq 83,5 milljarðar króna. Virði félagsins hefur því meira en tvöfaldast frá því í september.
Amaroq sótti alls 4,8 milljarða króna hlutafjárútboðið í desember en félagið nýtti sér stækkunarheimild í útboðinu til að hleypa nýjum alþjóðlegum fjárfestum inn í ljósi 60% umframeftirspurnar.
Gengið í útboðinu var 151 króna og hafa því fjárfestar sem tóku þátt í útboðinu séð virði hluta sinna hækka um rúm 38% frá því í desember.
Í lok nóvember greindi Amaroq frá því að félagið hefði klárað fyrstu framleiðslu sína á gulli en með því varð náma félagsins í Nalunaq í Grænlandi tekjumyndandi.
Félagið stefnir á að auka framleiðslu upp í full afköst á 4. ársfjórðungi 2025, þar sem unnin verða 260-300 tonn á dag af efni með áætluðum 12-16 g/t af gullstyrkleika.
Hlutabréfaverð Oculis, sem hefur verið í miklu skriði síðustu daga, lækkaði um 3% í viðskiptum dagsins. Líkt og fyrri daga var mikil velta með bréf félagsins en gengið lækkaði í alls 1,2 milljarða króna viðskiptum.
Dagslokagengi Oculis var 3.200 krónur sem er enn um 34% hærra en fyrir mánuði síðan.
Hlutabréfaverð Eimskips hélt áfram að hækka í dag er gengið fór upp um tæp 3% í 407 milljón króna veltu. Dagslokagengi Eimskips var 438 krónur sem er um 14% hærra en í byrjun árs.
Gengi gámaflutningafélagsins hefur verið hærra síðan í janúar í fyrra.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,17% og var heildarvelta á markaði 6,5 milljarðar.