Apple hefur tapað um 250 milljörðum dala í markaðsvirði í viðskiptum dagsins eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti nýja og víðtæka tolla á innflutning frá Asíu.
Þetta gerir Apple að einu af stærstu fórnarlömbum tollastefnu forsetans til þessa. Hlutabréf fyrirtækisins lækkuðu um allt að 8,5 prósent við opnun markaða í New York og markaðsvirðið féll úr 3,37 billjónum dala í 3,12 billjónir. Fjárfestar óttast nú að nýju tollarnir muni draga verulega úr hagnaði fyrirtækisins.
Nýju gjöldin beinast að öllum helstu framleiðsluríkjum Apple í Asíu, þar á meðal Kína, Taívan, Víetnam og Indlandi.
Stór hluti þeirra tækja sem Apple selur, svo sem iPhone, iPad, Mac-tölvur og AirPods, eru framleidd í þessum löndum. Víetnam og Indland, sem gegna sífellt stærra hlutverki í framleiðslu fyrir fyrirtækið, standa einnig frammi fyrir háum tollum, sem nema 46 og 26 prósentum.
Hækkun kostnaðar af þessu tagi setur Apple í erfiða stöðu. Fyrirtækið þarf annaðhvort að hækka verð á vörum sínum til að vega upp á móti kostnaðinum eða sætta sig við lægri hagnað.
Ef Apple ákveður að velta nýjum tollakostnaði yfir á neytendur, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem verðlagning er oft grunnur að alþjóðlegum verðum, munu verðhækkanir líklega berast út á alþjóðamarkaði, þar með talið til Íslands.
Flestar Apple-vörur á Íslandi eru þó fluttar inn í gegnum Evrópu eða dreifingarkerfi sem miðast við verð í evrum.
Ef Apple hækkar evruverð til að vega upp á móti tollum í Bandaríkjunum, færast áhrifin líka hingað, jafnvel þótt Ísland sé ekki í tolladeilunni sjálfri.
Að auki gæti veiking bandaríkjadals, sem er einnig á sér stað í kjölfar tollanna. áhrif á innkaupsverð á Íslandi óbeint, þó að styrking krónunnar gæti að hluta jafnað það út, ef hún gerist samtímis, sem er þó óvíst.
Samkvæmt greiningu TD Cowen gæti hver 10 prósenta tollur dregið úr hagnaði um 3,5 til 4 prósent næstu tvö ár.
Jefferies bendir á að 37 milljónir iPhone-síma séu fluttar inn frá Kína á hverju ári og að þessi innflutningur einn og sér gæti lækkað nettóhagnað fyrirtækisins um allt að 14 prósent.
Tollarnir eru óneitanlega mikið áfall fyrir Apple, sem hefur á síðustu árum reynt að koma sér í mjúkinn hjá stjórnvöldum í Washington.
Tim Cook, forstjóri Apple, hefur ítrekað átt fundi með forsetanum og sótt embættistöku hans þrátt fyrir gagnrýni innan úr fyrirtækinu.
Í febrúar hét Apple því að fjárfesta 500 milljörðum dala í Bandaríkjunum næstu fjögur árin og ráða 20.000 nýja starfsmenn, þar á meðal við uppbyggingu nýrrar gervigreindarmiðstöðvar í Texas. Þrátt fyrir þetta fékk fyrirtækið enga undanþágu frá nýju tollunum og Hvíta húsið hefur staðfest að forsetatilskipunin veiti engar sérmeðferðir. Apple hefur ekki gefið út nein svör við því hvort reynt verði að semja um undanþágur, líkt og tókst í fyrri forsetatíð Trumps.
Sumir þættir í rekstri Apple eru þó enn undanþegnir tollum, meðal annars örgjörvar frá TSMC í Taívan.
Fyrirtækið rekur nýja verksmiðju í Arizona sem á að þjóna bæði Apple og Nvidia. Hins vegar munu nýir tollar á hátæknibúnað frá Evrópusambandinu, þar með talið frá ASML í Hollandi, líklega hækka kostnað við uppbyggingu slíkra innlendra framleiðslueininga.
Að mati greiningaraðila munu tollarnir einnig hafa víðtæk áhrif á aðfangakeðjur fyrirtækisins.
Þrátt fyrir að Apple fengist undanþága síðar meir þarf fyrirtækið nú að hraða fjölbreytni í birgjaneti sínu og færa framleiðslu í auknum mæli til annarra landa. Þetta gæti einnig kallað á hærri greiðslur til birgja til að tryggja stöðugleika og sveigjanleika í afhendingu.
Apple stendur því frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að velja á milli þess að velta kostnaði yfir á neytendur eða taka hann á sig með lægri framlegð.
Hvor valkosturinn sem verður ofan á, þá hefur trú fjárfesta á rekstrarumhverfi fyrirtækisins þegar beðið hnekki – eins og sjá má á stærstu markaðsvirðislækkun ársins til þessa.