Gengi sam­fé­lags­miðilsins Truth Social, sem fór á markað í síðustu viku í gegnum sam­runa við sér­hæft yfir­töku­fé­lag, féll um 22% í gær eftir að fé­lagið birti árs­upp­gjör fyrir opnun markaða.

Sam­kvæmt upp­gjörinu var fyrir­tækið í tölu­verðri lausa­fjár­krísu undir lok síðasta árs og ef ekki hefði orðið af sam­runanum hefði sam­fé­lags­miðilinn lík­legast orðið gjald­þrota.

Tekjur Truth Social á fjórða árs­fjórðungi námu 750 þúsund dölum en fyrir­tækið tapaði 60 milljónum Banda­ríkja­dala á árinu.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal hefur sam­fé­lags­miðlinum einungis tekist að ná inn 5,6 milljónum dala í tekjur frá stofnun árið 2021.

Útboðið skilaði um 300 milljónum dala

Skráning sam­fé­lags­miðilsins á Nasaq, með sam­einingu við sér­hæfða yfir­töku­fé­lagið Digi­tal World Acqu­isition Corp., skilaði þó fyrir­tækinu 300 milljónum dala sem ætti að vera meira en nóg til að halda rekstrinum gangandi.

Gengi hins sam­einaða fé­lags, Trump Media & Technology Group Corp, sem notar auð­kennið DJT á Nas­daq er þó enn 389% hærra en út­boðs­gengið í DWAC árið 2021.

Markaðs­virði fé­lagsins var um 6,3 milljarðar dala við lokun markaða í gær.

Markaðs­virði tæp­lega 60% hlutar Donald Trumps fyrr­verandi for­seta Banda­ríkjanna í fé­laginu lækkaði um 1 milljarð dala í við­skiptum gær­dagsins en hlutur hans er nú metinn á rúma 3,7 milljarða dali, sem samsvarar um 517 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.