Hlutabréfaverð John Bean Technologies hækkaði um tæp 18% í gær eftir að félagið birti árshlutauppgjör á þriðjudaginn.
Þegar þetta er skrifað stendur gengið í 112,15 Bandaríkjadölum en fast viðmiðunargengi í yfirtökutilboði JBT í allt hlutafé Marels er 96,25 dalir.
Munar því tæplega 16 dölum á markaðsvirði hluta í JBT og viðmiðunargenginu sem samsvarar til 2.200 krónum á gengi dagsins.
Líkt og kunnugt er var gildistíma yfirtökutilboðs JBT til hluthafa Marels framlengt til 11. nóvember en tilboðið er háð 90% samþykki hluthafa.
JBT mun greiða fyrir hlutina í Marel í evrum og er fast skiptigengi evru og krónu 149,5 í viðskiptunum. Evran er í 148,93 krónum um þessar mundir.
Miðað við fasta skiptigengið verða greiddar 538 krónur á hlut í Marel en gengi Marels stendur nú í 564 krónum eftir hátt í fjögurra milljarða króna veltu síðustu tvo sólarhringa.
Þrátt fyrir að hluthöfum bjóðist þrír valmöguleikar um greiðslu er vegið meðaltal fulls endurgjalds JBT fyrir allt hlutafé í Marel því samsett af 35% í formi reiðufjár og 65% í formi afhentra hlutabréfa í JBT.
Aðeins 950 milljónir evra skiptast á milli allra þeirra hluthafa sem óska eftir því að fá reiðufé.
Líkt og áður hefur komið fram geta hluthafar valið milli þess að fá:
- Að fá greiddar 3,60 evrur í reiðufé.
- Að fá afhenta 0,0265 hluti í JBT og 1,26 evrur í reiðufé.
- Fá afhenta 0,0407 hluti í JBT.
Í árshlutauppgjöri JBT í gær kom fram að tekjur félagsins jukust um 12% frá sama tímabili í fyrra.
Tekjur JBT námu 454 milljónum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi sem samsvarar um 63 milljörðum króna á gengi dagsins.
Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) jókst um 23% og nam 82 milljónum dala.
Framlegðarhlutfall JBT nam 18% á fjórðungnum samanborið við 16,4% á sama tímabili árið 2023. Nýjar mótteknar pantanir námu 440 milljónum dala sem er um 10% aukning frá sama fjórðungi í fyrra.