Gengi hlutabréfa í Amaroq Minerals hefur lækkað um 14,3 prósent frá því að félagið birti hálfsársuppgjör sitt 14. ágúst síðastliðinn.
Dagslokagengi félagsins fyrir uppgjör var 118,5 krónur á hlut en það stendur nú í 101,5 krónum eftir um 5% lækkun í viðskiptum dagsins.
Miðað við heildarfjölda hluta í félaginu, sem nemur 454.106.653, hefur markaðsvirði þess lækkað um 7,7 milljarða króna á þessum rúmu tveimur vikum.
Í uppgjörinu kom fram að Amaroq hefði í fyrsta sinn skilað tekjum eftir að gullframleiðsla hófst í Nalunaq-námu félagsins á Grænlandi.
Tekjur á öðrum ársfjórðungi námu 3,4 milljónum kanadískra dala en félagið skilaði rekstrartapi upp á 4,9 milljónir Kanadadollara á ársfjórðungnum eða um 430 milljónum króna.
Tekjur á öðrum ársfjórðungi námu 3,4 milljónum kanadískra dala en félagið skilaði rekstrartapi upp á 4,9 milljónir Kanadadollara á ársfjórðungnum eða um 430 milljónum króna.
Stjórnendur tilkynntu jafnframt að framleiðsluáætlun fyrir árið 2025 hefði verið lækkuð í 5.000 unnsur af gulli.
Félagið hafði áður gefið út að stefnt yrði að gullframleiðslu á bilinu 5-20 þúsund únsa í ár. Áform eru því við lægra bilið en það sem félagið hafði áður gefið út.
Miðað við núverandi heimsmarkaðsverð á gulli, 3.398 dalir á únsu, eru 5 þúsund únsur um 16,99 milljóna dala virði. Samsvarar það um 2,1 milljarði íslenskra króna.
Í uppgjörinu kom einnig fram að ákveðnar framkvæmdir við vinnslustöðina gætu leitt til tímabundinnar stöðvunar á vinnslu þó að námugröftur héldi áfram.
Sambland af auknu tapi, minni framleiðsluáætlun og mögulegri vinnslustöðvun virðist hafa aukið óvissu meðal fjárfesta.
Það skýrir að hluta þann söluþrýsting sem hefur leitt til þess að gengi bréfa Amaroq hefur fallið um 14 prósent frá birtingu uppgjörsins.