Gengi hluta­bréfa í Amaroq Minerals hefur lækkað um 14,3 pró­sent frá því að félagið birti hálfsárs­upp­gjör sitt 14. ágúst síðastliðinn.

Dagsloka­gengi félagsins fyrir upp­gjör var 118,5 krónur á hlut en það stendur nú í 101,5 krónum eftir um 5% lækkun í við­skiptum dagsins.

Miðað við heildarfjölda hluta í félaginu, sem nemur 454.106.653, hefur markaðsvirði þess lækkað um 7,7 milljarða króna á þessum rúmu tveimur vikum.

Í upp­gjörinu kom fram að Amaroq hefði í fyrsta sinn skilað tekjum eftir að gull­fram­leiðsla hófst í Nalunaq-námu félagsins á Græn­landi.

Tekjur á öðrum árs­fjórðungi námu 3,4 milljónum kana­dískra dala en félagið skilaði rekstrar­tapi upp á 4,9 milljónir Kana­da­dollara á árs­fjórðungnum eða um 430 milljónum króna.

Tekjur á öðrum árs­fjórðungi námu 3,4 milljónum kana­dískra dala en félagið skilaði rekstrar­tapi upp á 4,9 milljónir Kana­da­dollara á árs­fjórðungnum eða um 430 milljónum króna.

Stjórn­endur til­kynntu jafn­framt að fram­leiðsluáætlun fyrir árið 2025 hefði verið lækkuð í 5.000 unnsur af gulli.

Félagið hafði áður gefið út að stefnt yrði að gull­fram­leiðslu á bilinu 5-20 þúsund únsa í ár. Áform eru því við lægra bilið en það sem félagið hafði áður gefið út.

Miðað við núverandi heims­markaðsverð á gulli, 3.398 dalir á únsu, eru 5 þúsund únsur um 16,99 milljóna dala virði. Sam­svarar það um 2,1 milljarði ís­lenskra króna.

Í upp­gjörinu kom einnig fram að ákveðnar fram­kvæmdir við vinnslu­stöðina gætu leitt til tíma­bundinnar stöðvunar á vinnslu þó að námu­gröftur héldi áfram.

Sam­bland af auknu tapi, minni fram­leiðsluáætlun og mögu­legri vinnslu­stöðvun virðist hafa aukið óvissu meðal fjár­festa.

Það skýrir að hluta þann söluþrýsting sem hefur leitt til þess að gengi bréfa Amaroq hefur fallið um 14 pró­sent frá birtingu upp­gjörsins.