Gengi eignarhaldsfélagsins New York Community Bancorp, sem heldur utan um eignarhluti í ýmsum svæðisbundnum bönkum í Bandaríkjunum, hefur ekki verið lægra síðan í júlí 2000, eftir að matsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfiseinkunn félagsins.
Samkvæmt The Wall Street Journal myndaðist töluverður söluþrýstingur með bréf NYCB í gær en félagið, sem keypti meðal annars hluti úr hinum fallna banka Signature bank síðasta vor, greindi frá miklu tapi á fjórða ársfjórðungi í síðustu viku.
Gengi bankans féll um 10% í viðskiptum gærdagsins en gengið hefur lækkað um 48% frá því að uppgjörið var birt síðasta þriðjudag.
Hefur markaðsvirði félagsins lækkað um 3,55 milljarða Bandaríkjadali sem samsvarar ríflega 490 milljörðum íslenskra króna.
Lánshæfiseinkunn félagsins var lækkuð í BBB- eftir lokun markaða á föstudaginn en samkvæmt Fitch er það sér í lagi vegna vegna atvinnuhúsnæðislána sem bankinn hefur þurft að afskrifa.
Að mati Fitch er félagið einnig í töluverðum vandræðum með að mæta ýmsum eftirlitskröfum en eftir kaup á Signature í fyrra og Flagstar Bank árið áður fór eignasafn félagsins yfir 100 milljarða Bandaríkjadali en með því fylgja strangari reglur og meira eftirlit.