Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins Oculis, sem sérhæfir sig í augnsjúkdómum, hefur hækkað um 43% síðastliðinn mánuð og var dagslokagengi félagsins 2460 krónur eftir rúma 4% hækkun í dag.
Markaðsvirði félagsins var í 76,7 milljörðum í upphafi mánaðar en sé tekið mið af dagslokagengi dagsins er það komið í 114,2 milljarða. Samsvarar það um 38 milljarða króna aukningu á einum mánuði.
Oculis fór á aðalmarkað íslensku kauphallarinnar í lok apríl á þessu ári og var dagslokagengið 1.690 krónur eftir fyrsta viðskiptadag. Gengi félagsins hefur hækkað um rúm 45% síðan þá en töluverð velta hefur verið með bréf Oculis á síðustu vikum.
Fjárfestar virðast vera að binda vonir við jákvæðar niðurstöður frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) en forsvarsmenn Oculis funduðu með eftirlitinu í ágústmánuði vegna undirbúnings til umsóknar um markaðsleyfi á OCS-01.
Um er að ræða augndropa til meðferðar við bólgu og verkjum eftir augnaðgerðir en droparnir eru sagðir byltingarkenndir og er Oculis með einkaleyfi á framleiðslu þeirra til ársins 2040.
Samkvæmt árshlutauppgjöri Oculis veitti fundurinn skýra leið að umsókn um markaðsleyfi á fyrsta ársfjórðungi 2025.
Halldór Kristmannsson, sem rekur ráðgjafarfyrirtækið Aviva Communication og hluthafi í Oculis, sagði í byrjun októbermánaðar að átta verðmöt erlendra greiningaraðila bentu til þess að virði félagsins væri um 2 til 3 sinnum meira en núverandi markaðsvirði.
Ef FDA veitir Oculis síðan markaðsleyfi á lyfjum sínum gjörbreytist staðan og gæti gengi hlutabréfa Oculis náð allt að 62,5 Bandaríkjadölum sem samsvarar um 8576 krónum á hlut.
Enn hækkar Festi
Hlutabréfaverð Festi hélt áfram að hækka í dag og fór gengi félagsins upp um tæp 5% í um 612 milljón króna viðskiptum.
Gengi Festi hefur hækkað um 13% á þremur viðskiptadögum en félagið birti árshlutauppgjör í vikunni sem sýndi betri afkomu en spáð hafði verið. Festi hækkaði afkomuspána sína fyrir árið um 400 milljónir í kjölfarið.
Gengi flugfélagsins Play hélt einnig áfram að hækka í viðskiptum dagsins og var dagslokagengi félagsins 1,13 krónur eftir 5,5% hækkun. Stjórnendur félagsins hafa verið að kaupa bréf í flugfélaginu en gengið hefur verið á uppleið eftir væna dýfu í kjölfar uppgjörs.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,15% og var heildarvelta á markaði 5,4 milljarðar.
Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í dag hefur íslenska úrvalsvísitalan leitt hækkanir á Norðurlöndunum.