Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins Oculis, sem sérhæfir sig í augnsjúkdómum, hækkaði um 7,5% í 1,5 milljarða króna viðskiptum í dag.
Gengi félagsins hefur nú hækkað um rúmlega 18% þar sem af er ári en velta með bréf félagsins hefur aukist gríðarlega á síðustu dögum.
Í dag var þriðji viðskiptadagurinn í röð þar sem velta með bréf félagsins fór yfir einn milljarð en samanlögð velta síðustu sex viðskiptadaga er komin yfir fimm milljarða.
Markaðsvirði Oculis í lok árs í fyrra nam 110,53 milljörðum króna en sé tekið mið af dagslokagengi dagsins í dag er markaðsvirði félagsins 131,9 milljarðar.
Um 67% hækkun frá skráningu
Oculis fór á aðalmarkað íslensku kauphallarinnar í lok apríl á þessu ári og var dagslokagengið 1.690 krónur eftir fyrsta viðskiptadag en gengið hefur hækkað um tæp 67% síðan þá.
Fjárfestar virðast vera að binda vonir við jákvæðar niðurstöður frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) við umsókn um markaðsleyfi fyrir OCS-1 en forsvarsmenn Oculis funduðu með eftirlitinu í ágúst í fyrra en samkvæmt uppgjöri verður sótt um markaðsleyfi á fyrsta ársfjórðungi í ár.
Um er að ræða augndropa til meðferðar við bólgu og verkjum eftir augnaðgerðir en droparnir eru sagðir byltingarkenndir og er Oculis með einkaleyfi á framleiðslu þeirra til ársins 2040.
Verðmöt erlendra greiningarfyrirtækja sem birt voru undir lok síðasta árs gera ráð fyrir að hlutabréfaverð Oculis geti náð allt að 62,5 dölum samþykki FDA umsókn félagsins en það samsvarar um 8800 krónum á hlut.
Gengi Play lækkaði með deginum
Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hækkaði verulega innan dags en gengið tók að lækka þegar leið á viðskipti dagsins. Dagslokagengi Play nam 1,14 krónum sem er um 3,5% hærra en dagslokagengi gærdagsins.
Hlutabréfaverð Haga hækkaði um 4% í um 253 milljóna viðskiptum í dag en félagið mun birta árshlutauppgjör þriðja ársfjórðungs í næstu viku.
Gengi Iceland Seafood International hækkaði einnig um tæp 4% og var dagslokagengið 5,15 krónur. Dagslokagengi ISI hefur ekki verið hærra síðan í byrjun nóvember í fyrra.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 1,42% og stóð í 2.872 stigum við lokun markaða. Heildarvelta á markaði var 6,7 milljarðar.