Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins Oculis, sem sérhæfir sig í augnsjúkdómum, lækkaði um rúm 3% í viðskiptum dagsins en gengi félagsins hefur nú lækkað um rúm 20% síðastliðinn mánuð.
Á þeim tíma hefur gengið lækkað úr 3.140 krónum í 2.500 krónur og markaðsvirði félagsins lækkað um 34,6 milljarða.
Markaðsvirði Oculis við lokun markaða í dag var tæplega 134,9 milljarðar.
Svo virðist sem vaxtarfélögin séu að finna fyrir vaxandi efnahagsóvissu á heimsvísu en hlutabréfaverð Alvotech hefur einnig lækkað töluvert síðastliðinn mánuð.
Gengi Alvotech lækkaði um 2% í viðskiptum dagsins og lokaði í 1.490 krónum sem er um 17% lægra en fyrir mánuði síðan.
Íslenska málmleitarfélagið Amaroq hefur síðan lækkað um rúm 19% síðastliðinn mánuð eftir um tæplega 1% lækkun í viðskipum dagsins. Gengi félagsins stendur í 162,5 krónum eftir um 355 milljón króna veltu í dag.
Gengi Play og Icelandair lækkaði einnig í viðskiptum dagsins er hlutabréfaverð beggja flugfélaga fór niður um 2%.
Dagslokagengi Icelandair var 1,19 krónur á hlut á meðan dagslokagengi Play var 0,72 krónur.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,88% og lokaði í 2.792,89 stigum. Heildarvelta á markaði 2,8 milljarðar.