Hlutabréf flugfélagsins Play héldu áfram að lækka í dag er gengi félagsins fór niður um tæp 7% í örviðskiptum í dag. Dagslokagengi Play var 0,69 krónur sem er um 36% lægra en fyrir mánuði síðan.

Miðað við núverandi gengi er markaðsvirði flugfélagsins 1,3 milljarðar. Markaðsvirði Play fór undir 10 milljarða í febrúar 2023 og síðan undir 4 milljarða í febrúar í fyrra.

Play skilaði 66 milljóna dala tapi á liðnu ári, sem nemur ríflega 9,1 milljarði króna. Til samanburðar tapaði félagið um 35 milljónum dala árið áður, sem nemur 4,8 milljörðum króna.

Tekjuvöxtur félagsins hefur þó verið mikill í takt við aukin umsvif. Tekjur Play á síðasta ári námu 292 milljónum dala, sem nemur 40,3 milljörðum króna. Tekjurnar jukust um 3,7% milli ára – en hafa meira en tvöfaldast frá fyrsta heila starfsári flugfélagsins árið 2022.

„Helsta áskorun Play er að einingakostnaður (CASK) er enn þá talsvert meiri en einingatekjur (RASK). Þetta verður að breytast á árinu 2025 til að félagið skili hagnaði eða a.m.k. minnki tapið milli ára,“ segir Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi og ráðgjafi á flugmarkaði.

Í ársreikningi kemur fram að búist sé við svipaðri fjárhagsniðurstöðu á fyrsta ársfjórðungi samanborið við í fyrra þegar félagið tapaði 21,7 milljónum dala.

„Play mun þurfa að afla aukins fjármagns fljótlega,“ útskýrir Hans, en síðast jók Play hlutafé sitt um 4,6 milljarða króna í apríl sl. í aðdraganda skráningar félagsins á aðalmarkað.

Enn lækka vaxtarfélögin

Ekkert lát hefur verið á lækkunum Amaroq Minerals, Alvotech og Oculis á síðustu vikum en síðarnefndu tvö félögin eru tiltölulega háð Bandaríkjamarkaði á meðan Amaroq heldur á víðtækum rannsóknar- og námuvinnsluheimildum í Grænlandi.

Gengi Amaroq hefur lækkað um 18,5% síðastliðinn mánuð eftir um 3% lækkun í viðskiptum dagsins. Dagslokagengi Amaroq var 160 krónur á hlut en það stóð hæst í 209 krónum um miðjan janúar.

Hlutabréf í Alvotech hafa lækkað um 16,6% síðastliðinn mánuð en gengi félagsins fór niður um tæp 2% í viðskiptum dagsins. Dagslokagengi Alvotech var 1.500 krónur.

Gengi Oculis, sem væntir þess að fá samþykki frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) fyrir markaðsleyfi á OCS-01 á fyrsta fjórðungi, hefur lækkað um 19% síðastliðinn mánuð.

Um er að ræða augndropa til meðferðar við bólgu og verkjum eftir augnaðgerðir en droparnir eru sagðir byltingarkenndir og er Oculis með einkaleyfi á framleiðslu þeirra til ársins 2040.

Dagslokagengi Oculis var 2.560 krónur eftir um rúma 2% lækkun í 492 milljón króna viðskiptum í dag.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,8% og var heildarvelta á markaði 4 milljarðar.