Markaðsvirði sjávarút­vegs­fyrir­tækja í Kaup­höllinni lækkaði um rúm­lega 15 milljarða ís­lenskra króna í við­skiptum dagsins eftir að ríkis­stjórnin til­kynnti áform sín um að tvöfalda veiði­gjaldið.

Hluta­bréfa­verð Brims leiddi lækkanir er gengi félagsins fór niður um 4,35%. Dagsloka­gengi Brims var 66 krónur á hlut sem er um 9% lægra en í byrjun árs.

Gengi Síldar­vinnslunnar lækkaði um rúm 4% í við­skiptum dagsins. Dagsloka­gengi félagsins var 82 krónur sem er um 11% lægra en í árs­byrjun.

Ís­félagið lækkaði um 2,35% og lokaði í 133,2 krónum á hlut sem er lægsta gengi félagsins frá skráningu. Hluta­bréfa­verð Ís­félagsins hefur einnig lækkað um 11% á árinu.

Sé tekið mið af dagsloka­gengi og fjölda hluta misstu sjávarút­vegs­félögin um 15 milljarða af markaðsvirði sínu í við­skiptum dagsins. Saman­lagt hafa þessi þrjú sjávarút­vegs­félög nú tapað um tæp­lega 45 milljörðum í markaðsvirði þar sem af er ári.

Loðnu­brestur og aðrar áskoranir hafa litað rekstur þeirra en ákvörðun stjórn­valda að tvöfalda veiðigjöld í dag hafði óneitan­lega áhrif á lækkun dagsins. Ríkis­stjórnin telur sig geta sótt allt að tíu milljarða auka­lega með því að hækka gjaldið.

Dagsloka­gengi Ís­félagsins fór einnig í fyrsta skipti undir 135 krónur á hlut sem var út­boðs­gengi félagsins í út­boði til al­mennings í að­draganda skráningar félagsins. Al­menningur sem tók þátt í út­boðinu bók­færði því tap í fyrsta sinn í dag frá skráningu félagsins.

Á móti hækkaði Hampiðjan um rúm 3% í 366 milljón króna við­skiptum á meðan Eim­skip hækkaði um rúm 2% í 489 milljón króna við­skiptum.

Hluta­bréfa­verð Nova hækkaði um 2% í 144 milljón króna við­skiptum.

Úr­vals­vísi­talan hækkaði um 0,71% og var heilda­velta á markaði 6,7 milljarðar.