Markaðsvirði sjávarútvegsfyrirtækja í Kauphöllinni lækkaði um rúmlega 15 milljarða íslenskra króna í viðskiptum dagsins eftir að ríkisstjórnin tilkynnti áform sín um að tvöfalda veiðigjaldið.
Hlutabréfaverð Brims leiddi lækkanir er gengi félagsins fór niður um 4,35%. Dagslokagengi Brims var 66 krónur á hlut sem er um 9% lægra en í byrjun árs.
Gengi Síldarvinnslunnar lækkaði um rúm 4% í viðskiptum dagsins. Dagslokagengi félagsins var 82 krónur sem er um 11% lægra en í ársbyrjun.
Ísfélagið lækkaði um 2,35% og lokaði í 133,2 krónum á hlut sem er lægsta gengi félagsins frá skráningu. Hlutabréfaverð Ísfélagsins hefur einnig lækkað um 11% á árinu.
Sé tekið mið af dagslokagengi og fjölda hluta misstu sjávarútvegsfélögin um 15 milljarða af markaðsvirði sínu í viðskiptum dagsins. Samanlagt hafa þessi þrjú sjávarútvegsfélög nú tapað um tæplega 45 milljörðum í markaðsvirði þar sem af er ári.
Loðnubrestur og aðrar áskoranir hafa litað rekstur þeirra en ákvörðun stjórnvalda að tvöfalda veiðigjöld í dag hafði óneitanlega áhrif á lækkun dagsins. Ríkisstjórnin telur sig geta sótt allt að tíu milljarða aukalega með því að hækka gjaldið.
Dagslokagengi Ísfélagsins fór einnig í fyrsta skipti undir 135 krónur á hlut sem var útboðsgengi félagsins í útboði til almennings í aðdraganda skráningar félagsins. Almenningur sem tók þátt í útboðinu bókfærði því tap í fyrsta sinn í dag frá skráningu félagsins.
Á móti hækkaði Hampiðjan um rúm 3% í 366 milljón króna viðskiptum á meðan Eimskip hækkaði um rúm 2% í 489 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréfaverð Nova hækkaði um 2% í 144 milljón króna viðskiptum.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,71% og var heildavelta á markaði 6,7 milljarðar.