Hlutabréfaverð fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins Sýnar lækkaði um rúm 16% í afar lítilli veltu í dag. Dagslokagengi félagsins var 24,6 krónur á hlut og hefur ekki verið lægra í um fimm ár.

Markaðsvirði Sýnar var 7.280.879.424 krónur við lokun markaða á föstudaginn en eftir um tæplega 1,2 milljarða króna lækkun í dag er markaðsvirðið félagsins 6.092.163.016 krónur.

Gengi Sýnar hefur nú lækkað um tæp 24% innan árs og 48% síðastliðið ár.

Í afkomuviðvörun félagsins á föstudaginn kom fram að félagið gerði nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) fyrir árið í fyrra verði um 700 milljónir króna, sem er verulega undir áður útgefnum spám.

Í afkomuviðvörun félagsins á föstudaginn kom fram að félagið gerði nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) fyrir árið í fyrra verði um 700 milljónir króna, sem er verulega undir áður útgefnum spám.

Fyrri áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir að EBIT myndi liggja á bilinu 900 til 1.100 milljónir króna, en í uppfærðri spá frá síðasta hausti var gert ráð fyrir að hagnaðurinn myndi nálgast neðri mörk þess bils.

Samkvæmt Kauphallartilkynningu Sýnar koma þessi frávik til vegna verulegrar lækkunar auglýsingatekna, samdráttar í áskriftartekjum sjónvarps, minni eignfærslna á launakostnaði og óvænts tjóns vegna eldsvoða sem hafði veruleg áhrif á rekstur félagsins.

Sala auglýsinga reyndist mun minni en gert var ráð fyrir í upphaflegum áætlunum.

Tekjur af auglýsingasölu voru 258 milljónum króna undir væntingum á síðustu tveimur fjórðungum ársins, þar af nam tekjuskerðingin 157 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi.

Tveggja milljarða viðskipti með bréf Skeljar

Þá lækkaði hlutabréfaverð fjárfestingafélagsins SKEL um tæp 2% í ríflega tveggja milljarða króna viðskiptum í dag.

Tilkynnt var um utanþingsviðskipti með 96.850.000 hluti að nafnverði fyrir opnun markaða. Gengið í viðskiptunum var 20 krónur á hlut og er því um að ræða 1,9 milljarða króna viðskipti.

Dagslokagengi SKEL eftir lækkun dagsins var 20,6 krónur á hlut. Hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um rúm 6% á árinu.

Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,12% og lokaði í 3.017,49 stigum en hún fór yfir 3.000 stigin síðastliðinn föstudag í fyrsta sinn í þrjú ár.

Heildarvelta á markaði nam 6,2 milljörðum króna.