Markaðsvirði Nvidia hefur lækkað um ríflega 550 milljarða dala frá því að örflöguframleiðandinn varð um skamma stund verðmætasta félag heims í síðustu viku. Markaðsaðilar óttast að lækki hlutabréfaverð félagsins mikið meira þá gæti það hafi neikvæð smitáhrif á bandaríska hlutabréfamarkaðinn, að því er segir í frétt Financial Times.

Markaðsvirði Nvidia hefur lækkað um ríflega 550 milljarða dala frá því að örflöguframleiðandinn varð um skamma stund verðmætasta félag heims í síðustu viku. Markaðsaðilar óttast að lækki hlutabréfaverð félagsins mikið meira þá gæti það hafi neikvæð smitáhrif á bandaríska hlutabréfamarkaðinn, að því er segir í frétt Financial Times.

Hlutabréfaverð Nvidia féll um 6,7% í gær og stóð í 118,11 dölum á hlut við lokun markaða. Gengi félagsins hefur nú lækkað um 16% frá því að það fór hæst í 140,76 dali á fimmtudaginn síðasta. Markaðsvirði Nvidia nemur nú um 2,91 þúsund milljörðum dala.

Lækkunin í gær kemur í kjölfar þess að tilkynnt var um að forstjóri og meðstofnandi Nvidia, Jensen Huang, hefði nýlega selt hlutabréf í félaginu fyrir 95 milljónir dala, eða um 13 milljarða króna. Salan var hluti af söluáætlun Huang (e. 10b5-1 sale plan) sem var komið af stað í mars.

Þrátt fyrir lækkanir síðustu daga hefur hlutabréfaverð Nvidia engu að síður hækkað um 145% í ár og ríflega áttfaldast frá ársbyrjun 2023. Hækkunina má m.a. rekja til gífurlegrar veltuaukningar á síðustu misserum og væntinga um frekari vöxt til framtíðar. Gríðarleg spurn er eftir örflögum félagsins sem nýtast við þjálfun og keyrslu gervigreindarlíkana.

Hækkun á gengi Nvidia skýrir tæplega þriðjunginn af hækkun hlutabréfavísitölunnar S&P 500 í ár. Viðmælandi FT segir að lækki gengi Nvidia frekar þá verði erfitt að sjá fram á hækkun á S&P 500 á næstunni.