Hlutabréfamarkaðir vestanhafs og í Evrópu hafa staðið umtalsvert betur en markaðurinn á Íslandi á undanförnum misserum.

Arðgreiðsluleiðrétt úrvalsvísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins, OMX Iceland 15, hefur þó tekið við sér að undanförnu. Vísitalan hefur hækkað um 17,7% frá því á sama tíma í fyrra og hækkað um 5,3% frá áramótum.

Snorri Jakobsson, greinandi og eigandi Jakobsson Capital, telur íslenska hlutabréfamarkaðinn eiga talsverðar uppsafnaðar hækkanir inni, samanborið við erlenda markaði.

„Í fyrsta lagi er ljóst að vaxtalækkanir framundan munu auka hvata fjárfesta til að fara frekar á hlutabréfamarkað en að vera með pening inn á bankareikningi. Í öðru lagi mun yfirtaka JBT á Marel og sala Kviku banka á TM leiða til töluverðs innstreymis inn á markaðinn.“

Hann segir að á móti séu blikur á lofti, sérstaklega í útflutningsgreinunum þar sem fyrirtækin eru í samkeppni við erlend fyrirtæki. Ísland sé orðið dýrt og kreppir að samkeppnishæfni. Spurður hvar fjárfestingatækifærin leynist segir hann fjárfesta verða að vanda valið meira nú en oft áður.

„Það er útlit fyrir hækkanir, en markaðurinn er þó snúinn. Staðan er þannig að það gengur vel sums staðar en annars staðar eru kostnaðarverðshækkanir að koma illa við markaðinn. Við höfum séð erfiðleika félaga á borð við Controlant og Skagans 3x. Það er þungt yfir sjávarútveginum og við sjáum erfiðleikamerki víða, sérstaklega í útflutningsgreinum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og fréttina í heild hér.