„Lífið er tilviljunum háð og maður virðist stjórna þessu einungis upp að vissu marki. Það er í raun og veru algjör tilviljun að maður hafi komið inn í Kauphöllina á sínum tíma,“ segir Páll Harðarson sem lauk störfum hjá Nasdaq á síðastliðnu ári eftir rúmlega tveggja áratuga starf í lykilhlutverkum innan Kauphallar Íslands og Nasdaq.

Ferill Páls hjá Kauphöllinni hófst árið 2002 þegar hann tók við stöðu rekstrarstjóra og aðstoðarforstjóra. Hann var skipaður forstjóri Kauphallar Íslands árið 2011 í kjölfar andláts Þórðar Friðjónssonar, fyrrverandi forstjóra, eftir skammvinna baráttu við krabbamein. Gegndi Páll hlutverkinu til ársins 2019.

Árið 2019 tekur hann síðan við stöðu fjármálastjóra evrópskra markaða hjá Nasdaq. Á árunum 2023-2024 bætir hann við sig Norður-Ameríkumarkaði og gegndi hann þá hlutverki fjármálastjóra markaðsviðskipta Nasdaq.

Þegar litið er til þróunar íslenska hlutabréfamarkaðarins á undanförnum árum segir Páll markaðinn e.t.v. hafa þróast öðruvísi en menn bjuggust við.

„Sjávarútvegurinn er að koma aftur sterkur inn, eins og hann var um aldamótin. Þar eigum við mörg stór og glæsileg fyrirtæki.

Markaðurinn hefur þróast talsvert á undanförnum árum og margt jákvætt verið gert. Hann hefur e.t.v. þróast í aðrar áttir en maður sá endilega fyrir. Spennandi hugverkafyrirtæki hafa komið inn og við höfum séð aukna fjölbreytni undanfarin ár.“

Páll sér mikil sóknartækifæri fyrir markaðinn, sem hann telur geta tvöfaldast í umfangi á næstu árum. Hann bendir á að þrátt fyrir að markaðurinn nálgist að mörgu leyti að vera sambærilegur við það sem gerist á Norðurlöndum, sé talsvert svigrúm fyrir frekari vöxt.

„Maður lítur til Norðurlandanna, sérstaklega Svíþjóðar, þar sem sænski markaðurinn hefur þróast mikið í krafti þess öfluga umhverfis sem honum hefur verið skapað, með mikilli þátttöku erlendra sem innlendra fjárfesta. Miðað við það tel ég að við ættum að geta tvöfaldað íslenska markaðinn í umfangi á einhverju árabili.“

Hann telur mikilvægt að fá fleiri stór fyrirtæki á markaðinn og nefnir Landsbankann sem dæmi.

„Það væri t.d. gott að fá inn Landsbankann, jafnvel þó að ríkið héldi eftir einhverjum hluta þar. Stærri skráningar myndu jafnframt greiða leið okkar inn í hærri flokkun hjá alþjóðlegum vísitölufyrirtækjum og auka áhuga erlendra fjárfesta.“

Páll telur mikilvægt að fá fleiri stór fyrirtæki á íslenskan hlutabréfamarkað og nefnir Landsbankann sem dæmi.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.