Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,8% í 2,8 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Gengi allra félaga á markaðnum féll í viðskiptum dagsins nema hjá útgerðarfélögunum Brimi og Síldarvinnslunni. Lokagengi Brims fór í fyrsta sinn yfir 100 krónur á hlut eftir 2% hækkun í dag en markaðsvirði félagsins hefur aukist um þriðjung í ár. Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar er einnig í hæstu hæðum og stóð í 104,5 krónum á hlut við lokun kauphallarinnar.
Eik leiddi lækkanir en gengi fasteignafélagsins féll um meira en 3%, þó í takmarkaðri veltu. Hlutabréfaverð flugfélaganna tveggja í Kauphöllinni féll í dag. Gengi Icelandair lækkaði um tæp 3% og er komið niður í 1,93 krónur á hlut aftur. Hlutabréfaverð Play lækkaði um 2% og stóð í 24,4 krónum á hlut við lokun markaða.
Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 0,3% í 650 milljóna viðskiptum. Gengi Íslandsbanka féll um 0,8% í 278 milljóna veltu og er aftur komið í 129 krónur á hlut.
Lækkanir á íslenska hlutabréfamarkaðnum voru í takti við þróun erlendis. S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 1,3% í dag og Stoxx Europe 600 vísitalan um 1,5%. Í umfjöllun WSJ segir að tæknifyrirtæki hafi leitt lækkanir. Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamörkuðum hélt áfram að hækka og hefur krafan á 10 ára bandarískum ríkisbréfum ekki verið hærri í rúm þrjú ár. Fjárfestar bíði nú eftir frekari upplýsingar um næstu skref Seðlabanka Bandaríkjanna.