Eftir talsverðar lækkanir á hlutabréfamarkaðnum í gær hækkuðu öll félög aðalmarkaðar Kauphallarinnar nema þrjú í dag. Úrvalsvísitalan hækkaði um 2% í yfir 4 milljarðar króna viðskiptum en til samanburðar féll hún um tæplega 4% í gær.

Lækkanir í gær voru að stórum hluta raktar til tollahækkunar Bandaríkjanna gagnvart Kanada, Mexíkó og Kína.

Hlutabréfaverð þrettán félaga aðalmarkaðarins hækkuðu um tvö prósent eða meira í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð Play hækkaði mest, eða um 5,8% í níu viðskiptum sem samanlagt námu þó minna en einni milljón króna. Gengi Play, stendur nú í 0,74 krónum á hlut.

Amaroq Minerals fylgdi þar á eftir í 4,1% hækkun í 130 milljóna veltu. Gengi Amaroq, sem náði í gær sínu lægsta stigi í ár í 158 krónum á hlut, endaði daginn í 165 krónum og er 9,6% lægra en í upphafi árs.

Auk Play og Amaorq þá hækkuðu hlutabréf Alvotech, Oculis og Iceland Seafood um meira en þrjú prósent í gær.

Eimskip var eina félagið sem lækkaði í viðskiptum dagsins en gengi flutningafélagsins féll um hálft prósent í 62 milljóna króna veltu og stendur nú í 438 krónum á hlut.