Tæplega 55% þátttakenda í markaðskönnun Viðskiptablaðsins telja að peningastefnunefnd Seðlabankans muni taka ákvörðun um að lækka vexti um 25 punkta á vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 19. mars í næstu viku.
Rúmlega þriðjungur svarenda telur að lækkunin muni nema 50 punktum. Þá sjá um 5% þeirra fram á óbreytta vexti og tæp 3% spá hækkun vaxta.
Könnunin var send á 271 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudaginn í síðustu viku og bárust 106 svör sem jafngildir 39% svarhlutfalli.
Rúmlega 67% svarenda telja aðhald peningastefnunnar of mikið. Þannig telja 37,5% aðhaldið „aðeins of mikið“, rúmlega fjórðungur telur það „of mikið“ og tæplega 4% svarenda telja það „allt of mikið“.
Tæplega þriðjungur svarenda telur aðhaldsstigið hæfilegt og einn þátttakandi könnunarinnar telur það „aðeins of lítið“.
A.m.k. 100 punkta lækkun til viðbótar
Stýrivextir standa nú í 8% og fram undan á árinu eru fimm vaxtaákvörðunarfundir. Einn í næstu viku, 19. mars og sá næsti þar á eftir 21. maí. Í kjölfarið líða þrír mánuðir þar til næsti fundur er haldinn þann 20. ágúst. Síðustu tveir fundir ársins eru síðan haldnir með sex vikna millibili, 8. október annars vegar og 19. nóvember hins vegar.
Markaðsaðilar telja að stýrivextir verði lækkaðir um 100 punkta til viðbótar á árinu, í hið minnsta. Þannig telja 62% þátttakenda að stýrivextir verði á bilinu 6% til 7% í lok árs 2025.
12% svarenda sjá fram á að vextir verði komnir niður í á bilinu 5% til 6% í lok árs 2025, sem jafngildir að meðaltali 50 punkta lækkun á hverjum einasta vaxtaákvörðunarfundi sem haldinn verður á árinu.
22% svarenda sjá fram á að verulega muni hægjast á vaxtalækkunarferlinu það sem eftir lifir árs og spá því að vextir verði á bilinu 7% til 8% í lok árs 2025.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.