Tæplega 70% þátttakenda í markaðskönnun Viðskiptablaðsins telja að peningastefnunefnd Seðlabankans muni taka ákvörðun um að lækka vexti um 50 punkta á vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 20. nóvember í næstu viku.
10,58% svarenda telja að lækkunin muni nema 75 punktum. Þá sjá 5,77% þeirra fram á 100 punkta lækkun. 12,5% svarenda telja að nefndin muni taka varfærnari skref og lækka vextina um 25 punkta, líkt og á síðasta fundi. Tveir þátttakenda, eða 1,92%, spá óbreyttum vöxtum og þá spáir einn þátttakenda fyrir um 50 punkta hækkun.
Könnunin var send á 257 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudag og föstudag síðastliðinn og bárust 104 svör sem jafngildir 40% svarhlutfalli.
Tæplega þrír af hverjum fjórum þátttakendum könnunarinnar telja aðhald peningastefnunnar vera of mikið.
Þannig telja 40% svarenda aðhaldsstigið „aðeins of mikið“, um fjórðungur telur það „of mikið“ og tæplega 8% svarenda „allt of mikið.“ Tæplega fjórðungur svarenda telur aðhaldsstigið hæfilegt og tæp 4% telja það annaðhvort „aðeins of lítið“ eða „of lítið.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.