Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur staðið í stað í fyrstu viðskiptum eftir opnun Kauphallarinnar í morgun. Gengi bankans stendur í 115,5 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð.

Markaðsgengi Íslandsbanka er nú um 8,4% yfir 106,56 króna útboðsgenginu í almenna hlutafjárútboðinu sem lauk í gær.

Hlutabréf Arion banka, Kviku banka ogd Skaga hafa öll hækkað um meira en tvö prósent í fyrstu viðskiptum í dag. Gengi Kviku banka hefur hækkað um 4% og stendur nú í 15,15 krónum á hlut.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,6% í ríflega 1,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Útboði á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka lauk kl. 17 í gær. Fjármálaráðuneytið tilkynnti rétt fyrir fimmleytið í gær að ákveðið hefði verið að stækka útboðið upp í allan 45,2% eftirstandandi hlut ríkisins en grunnmagn útboðsins náði til 20% af hlutafé bankans.

Í gærkvöldi var tilkynnt um að útboðsgengið í öllum þremur tilboðsbókum verði 106,56 krónur og heildarvirði útboðsins er því um 90,6 milljarðar króna. Heildareftirspurn í útboðinu var um 190 milljarðar króna.

Tilkynnt var í morgun um að tilboð í tilboðsbók A, sem var eingöngu ætluð einstaklingum með íslenska kennitölu, námu 88,2 milljörðum króna. Það samsvarar um 97,4% af heildarvirði útboðsins‏. Áætlað er að þeim hlutum verði úthlutað til 31.274 einstaklinga, með fyrirvara um aðlögun og leiðréttingar.

Tilkynningar um úthlutun í tilboðsbókum B og C verða sendar út að lokinni úthlutun til tilboðsbókar A miðvikudagsmorguninn 21. maí.

Lokadagur til greiðslu fyrir þá hluti sem úthlutaðir voru í tilboðsbók A er 20. maí og er gert ráð fyrir að greiddir hlutir verði afhentir fjárfestum innan tveggja virkra daga frá því að greiðsla berst. Þá er lokadagur til greiðslu og afhendingu fyrir þá hluti sem úthlutaðir voru í tilboðsbókum B og C 23. maí.