Ríkisútvarpið gerir ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi auglýsingasölu á þessu ári. Annað árið í röð er því ekki tekið tillit til ákvæðis í þjónustusamningi RÚV við ríkið fyrir tímabilið 2024-2027, sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáverandi menningar- og viðskiptaráðherra, skrifuðu undir í lok árs 2023. Samningurinn kveður sérstaklega á um að minnka eigi umsvif ríkismiðilsins á auglýsingarmarkaði.
Stjórn RÚV fjallaði meðal annars um fjárhagsáætlun ársins 2025 á fundi í lok nóvember sl. Í fundargerð kemur fram að áætlað sé að auglýsingatekjur verði um 2,7 milljarðar árið 2025. Auglýsingatekjur hafi að raunvirði staðið í stað frá árinu 2023 og séu 6-8% lægri en þær hafi verið á árunum 2012-2019.
Ársreikningur RÚV fyrir síðasta ár hefur ekki enn verið birtur en miðað við fyrrgreinda skýringu um að auglýsingatekjur hafi að raunvirði staðið í stað frá 2023 má ætla að auglýsingatekjur RÚV hafi verið um 2,6 milljarðar króna á síðasta ári, þar sem auglýsingatekjur námu tæplega 2,5 milljörðum árið 2023. Árið 2022 námu tekjur ríkismiðilsins af auglýsingasölu 2,4 milljörðum króna og árið 2021 rétt ríflega tveimur milljörðum.
Þvert á markmið þjónustusamnings
Eins og fyrr segir var gerður nýr þjónustusamningur milli Ríkisútvarpsins og menningar- og viðskiptaráðherra til fjögurra ára í lok árs 2023. Í viðauka við þjónustusamninginn er að finna yfirlýsingu útvarpsstjóra og menningarog viðskiptaráðherra vegna umsvifa RÚV á auglýsingamarkaði.
Þar segir að unnið verði að því á gildistíma samningsins að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði. Er þetta gert til að koma til móts við gagnrýnisraddir um að staða ríkisins á auglýsingamarkaði grafi undan frjálsum fjölmiðlum sem hafa barist í bökkum um árabil. Hafa margir til að mynda kalla eftir því að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði.
Í viðauka við þjónustusamninginn segir: „Unnið verður að því á gildistíma samningsins að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði, t.d. með frekari takmörkunum á birtingu viðskiptaboða og/eða með því að breyta eðli og umfangi auglýsingasölu.“ Ljóst má vera af fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins fyrir árið 2025 eins og sagt frá henni í fundargerð stjórnar RÚV að þetta markmið mun ekki nást.
Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn á menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið, sem tók yfir málefnasvið fjölmiðla eftir uppstokkun ráðuneyta í kjölfar þess að ný ríkisstjórn tók við völdum. Spurt var um hvort áform RÚV um óbreytt fyrirkomulag auglýsingasölu væru í samræmi við fyrrgreindan viðauka og ef svo sé ekki hvaða afleiðingar það kunni að hafa. Loks var spurt um hvort tekin hefði verið ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti dregið yrði úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði. Samkvæmt ráðuneytinu er svar við fyrirspurninni í vinnslu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.