Í nýrri skýrslu Landsnets um þjóðhagslegt virði virks raforkumarkaðar segir að innkoma breytilegra orkugjafa á borð við vindorku muni reynast nauðsynleg á komandi árum til að ná markmiðum um orkuskipti.
Til þess þurfi þó að innleiða markaðslausnir og stofna kauphöll með virkari orkumarkað. Núverandi fyrirkomulag raforkuviðskipta á Íslandi hefur í för með sér að takmörkuð viðskipti eru á milli markaðsaðila sem skapar aðgangshindranir á markaði þar sem gagnsæi skortir og verðmerki eru skekkt. Erfitt sé fyrir nýja aðila að koma inn í slíkum aðstæðum.
Vindorkukostir myndu líklega leiða til mikils ábata í formi vinnslukostnaðar raforku, samkvæmt skýrslunni. Varlega áætlað sé vinnslukostnaðarmunur milli vindorku og þeirra kosta í rammaáætlun sem vindorka myndi ryðja burt að jafnaði 1 kr./kWst.
Landsnet gerir ráð fyrir að viðbótarorkuþörf verði tæpar 16 TWst fram til ársins 2060 og að hluti vinds verði 2.152 GWst.
Til að meta þjóðhagslegan ávinning af lægri vinnslukostnaði vindorku eru þó settar fram sviðsmyndir um þátt vindorku í að mæta aukinni eftirspurn frá og með árinu 2030.
Fyrsta sviðsmyndin gerir ráð fyrir að 50% af viðbótarorkuframboði verði mætt með vindorku, önnur gerir ráð fyrir að öllu viðbótarorkuframboði verði mætt með vindi, en þriðja byggir á sviðsmynd Samorku og gerir ráð fyrir viðbótarorkuþörf um 24 TWst sem verði mætt með 100% vindi.
Miðað við fyrstu sviðsmyndina færi framleiðslukostnaðarábati vaxandi, úr 46 milljónum króna árið 2030 og upp í 6,1 milljarð árið 2060 en uppsafnaður ábati á tímabilinu myndi nema 116 milljörðum króna.
Kostnaðarábati í seinni sviðsmyndinni yrði rúmlega 13 milljarðar árið 2060 eða samtals 250 milljarðar á tímabilinu. Í ítrustu sviðsmyndinni væri ábatinn 21 milljarður árið 2060 og uppsafnaður ábati á tímabilinu um 410 milljarðar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur getal lesið fréttina í heild hér.