Nauðsynlegt er að auka orkuvinnslu til að mæta aukinni eftirspurn en ný raforkuspá Landsnets gerir ráð fyrir að eftirspurn eftir raforku til ársins 2050 muni aukast um hátt í 135% umfram það sem var árið 2023.
Í raforkuspá Landsnets er gert ráð fyrir að full orkuskipti sem fara fram með framleiðslu á innlendu rafeldsneyti verði lokið árið 2050 en að orkuskipti í samgöngum á landi, í vélum og tækjum sem og í innanlandsflugi verði lokið árið 2040. Almenn notkun og notkun stórnotenda fylgi sama mynstri.
Samkvæmt þeirri spá er gert ráð fyrir að heildareftirspurn eftir raforku verði 22.963 GWst árið 2030, 31.526 GWst árið 2040 og síðan 42.433 GWst árið 2050. Eftirspurn heldur síðan áfram að vaxa og verði 47.094 GWst árið 2060.
Miðað við framboð í rammaáætlun, þar sem horft er bæði til virkjunarkosta í nýtingarflokki og biðflokki, verður orkuskortur nánast allt spátímabilið.
Það er því ljóst að horfa þurfi til breytilegra virkjunarkosta í auknum mæli og hefur vindorka þar iðulega verið nefnd. Það blasa þó ýmsar áskoranir við en breytilegir orkugjafar geta ekki starfað án virks raforkumarkaðar.
Í nýrri skýrslu Landsnets um þjóðhagslegt virði virks raforkumarkaðar segir að núverandi fyrirkomulag raforkuviðskipta á Íslandi sé úr sér gengið og hindrun í vegi orkuskipta og skilvirks raforkukerfis.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur getal lesið fréttina í heild hér.