Stuart Machin, forstjóri Marks & Spencer í Bretlandi, segir að starfsmenn fyrirtækisins séu nú að vinna hörðum höndum að því að glíma við netárás sem varð til þess að fyrirtækið þurfti að loka tímabundið fyrir netverslun.

Á vef BBC segir að bilanir fóru fyrst að sjást yfir páska og hefur Marks & Spencer nú staðfest að um sé að ræða netárás sem hafi haft áhrif á starfsemi þess.

„Við erum að vinna dag og nótt að því að takast á við þessa netárás og koma hlutunum aftur í eðlilegt horf eins fljótt og auðið er. Við þökkum fyrir allan þann stuðning sem viðskiptavinir okkar hafa sýnt okkur,“ segir Machin.

Samkvæmt breska netöryggisráðuneytinu, NCSC, varð Harrods einnig fyrir netárás og hefur ráðuneytið hvatt smásala til að vera á varðbergi.

Netverslun samsvarar rúmlega þriðjungi allrar sölu hjá Marks & Spencer og hefur netárásin því haft veruleg áhrif á rekstur fyrirtækisins. Rúmlega 3,8 milljónum punda er eytt í fatnað og heimilisvörur á vefsíðu og í gegnum smáforrit fyrirtækisins á hverjum degi.